Undirrituð samtök, þ.á.m. KRFÍ, hafa sent eftirfarandi áskorun til ríkisstjórnar Íslands:
Því bera að fagna að enn einu sinni er komið fram á Alþingi frumvarp um að banna kaup á vændi. Að þessu sinni eru það nýmæli að þingmenn stjórnarflokkanna tveggja ásamt þingkonum Framsóknarflokks leggja fram frumvarpið og því ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að það verði afgreitt og samþykkt. Vændi er ein birtingarmynd kynferðisofbeldis gagnvart konum í vændi og því ber ábyrgðin að vera þeirra sem kaupa sér kynlífsþjónustu. Eftir að lögin voru endurbætt og konur í vændi eru ekki lengur sekar að lögum, sjáum við merki þess að vændi geti orðið útbreiddara en áður. Minnt skal á að útbreiddur og viðurkenndur klámiðnaður og vændi eru forsendur mansals og nær ómögulegt er að greina mansal frá annars konar kynlífsþjónustu. Við þessu þarf að bregðast. Ljóst er að málið nýtur ekki bara stuðnings allrar kvennahreyfingarinnar. Það nýtur líka mikils stuðnings hjá þjóðinni því samkvæmt skoðanakönnun Capacent Gallup frá því í mars 2007 vilja 70% þjóðarinnar banna kaup á vændi. Samkv. könnuninni virðist vera meirihluti fyrir málinu í öllum stjórnmálaflokkum og á meðal beggja kynja. Kvennahreyfingin gerir sér grein fyrir að ríkisstjórnin er störfum hlaðin og þingið er stutt. Nú reynir því á forgangsröðun verkefna. Enginn veit hvernig stjórn tekur við eftir kosningar og því virðist einstakt tækifæri fyrir núverandi stjórn að koma í gegn þessu þjóðþrifamáli. Sýnum í verki að við séum fjórða besta land í heimi fyrir konur. Á undan okkur eru aðeins Noregur, Svíþjóð og Finnland og tvö af þeim hafa þegar bannað kaup á konum!
- Bríet – Félag ungra feminista
- Feministafélag Íslands
- Karlahópur Feministafélagsins
- Kvennakirkjan
- Hópur 39 kvenna í kirkjunni
- Kvennaráðgjöfin
- Kvenréttindafélag Íslands
- Kvenfélagasamband Íslands
- Landsamband framsóknarkvenna
- Mannréttindaskrifstofa Íslands
- Menningar- og friðarsamtökin MFÍK
- Neyðarmóttaka vegna nauðgana
- Samtök um kvennaathvarf
- Stígamót
- Unifem
- Women Samtök kvenna af erlendum uppruna