Kvenréttindafélag Íslands hefur verið aðildafélag að IAW, eða International Alliance of Women, frá stofnun okkar 1907.
IAW gefur út fréttabréf sex sinnum á ári. Í nýjasta fréttabréfinu segir frá næsta alþjóðlega fundi IAW, sem haldinn verður í Kúvaít 5. til 14. nóvember. Þátttakendur á þeim fundi eru formenn aðildafélaga og stjórn IAW. Union of Kuwaiti Women, systursamtök okkar í Kúvaít, halda utan um fundinn.
Í fréttabréfinu er einnig hægt að lesa um fund Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna sem haldinn var í New York í mars síðastliðnum. Mikil óánægja var meðal kvennasamtaka út um allan heim um framgang ráðstefnunnar, en Kvennanefndin samþykkti ályktun á fyrsta degi fundarins án þess að bjóða félagasamtökum og óháðum aðilum að taka þátt í samningu þeirrar yfirlýsingar. Kvenréttindafélagið var eitt af rúmlega eitt þúsund samtökum út um allan heim sem skrifuðu undir ályktun þar sem því er mótmælt að Kvennanefnd Sameinuðu þjóðanna skuli ekki með virkum og afgerandi hætti samþykkja mannréttindi kvenna og tryggja áframhaldandi jafnréttisbaráttu þjóða heimsins (lesið ályktunina hér).
IAW hélt nokkra hliðarviðburði á fundi Kvennanefndarinnar, og í fréttabréfinu er hægt að lesa frásagnir af þessum viðburðum og sjá ljósmyndir.