19. júní, ársrit Kvenréttindafélags Íslands, er komið út í rafrænni útgáfu! Smellið hér til að lesa á netinu, eða hlaða niður ykkar eigið eintaki!
Í 19. júní í ár fjöllum við um fortíð, nútíð og framtíð kvennahreyfingarinnar, um byltinguna sem breytti heiminum á síðustu öld og byltinguna sem mun breyta heiminum á þessari.
Við fjöllum um myllumerki og tíst og baráttuaðferðir nýrrar kynslóðar femínista, við fjöllum um fjórðu bylgju femínismans og veltum fyrir okkur hvort hún sé skollin á strendur landsins, og við setjum baráttu dagsins í dag í sögulegt ljós. Í blaðinu er einnig að finna greinar um verkalýðsbaráttu kvenna, verkakvenna og kvenna í tónlistarbransanum, greinar um list kvenna, tónlist, myndlist og ritlist, og greinar um konur í pólitík, konur á besta aldri, konur með fötlun. Við lítum til systra okkar í nágrannalöndunum sem skrifa okkur bréf þar sem þær greina frá því hvað helst er á baugi í jafnréttisbaráttunni á Norðurlöndunum, og við birtum 62 kröfur norrænu kvennahreyfingarinnar sem samþykkt var í lok kvennaráðstefnunnar Nordiskt forum sem fram fór í Malmö, Svíþjóð í fyrra, en 30.000 gestir sóttu þá ráðstefnu heim
19. júní kom fyrst úr árið 1951. Það kemur nú út í sérprenti í fyrsta skipti í fimm ár. Árið 2011 var ákveðið að hætta prentaðri útgáfu, og blaðið kom í tvö ár út sem fylgirit með Fréttablaðinu og tvö árin eftir það einungis í rafrænu formi. Í tilefni af þessu mikla afmælisári, þegar við fögnum því að 100 ár eru liðin frá því að konur á Íslandi fengu kosningarétt, að 40 ár eru liðin frá Kvennafrídeginum, og 20 ár eru liðin frá Pekingsáttmála Sameinuðu þjóðanna, þá gefum við þetta blað út í veglegri útgáfu, bæði prentaðri og á netinu. Prentaða útgáfan verður send félögum í Kvenréttindafélagi Íslands, alþingismönnum og sveitarstjórnum út um allt land.
Vonumst við til þess að þetta nýja form eigi framtíðina fyrir sér, að 19. júní geti verið framtíðarvettvangur fyrir femínískar greinar um stjórnmál, menningu, list og sögu.
Ritstýrur 19. júní eru Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir og Steinunn Stefánsdóttir.
Í ritnefnd sátu einnig Auður Halldórsdóttir, Björg Einarsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Guðrún Ásmundsdóttir, Hildigunnur Gunnarsdóttir, Jóna Kristjana Hólmgeirsdóttir, Lára Aðalsteinsdóttir, Magnea Þuríður Ingvarsdóttir, María Lilja Þrastardóttir, Ragnheiður Davíðsdóttir, Signý Jóhannesdóttir, Silja Hrund Barkardóttir, Sólveig Baldursdóttir, Sólveig Jónasdóttir, Steinunn Þorsteinsdóttir, Unnur Jónsdóttir og Þórhildur Lárusdóttir.
Arna Gústafsdóttir sá um umbrot blaðsins. Þórey Mjallhvít Heiðar- og Ómarsdóttir gerði forsíðu.
Prentað í Odda, umhverfisvottaðri prentsmiðju.
Comments are closed.