Hallveigarstöðum, Reykjavík
11. apríl 2016

Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til laga um lengingu foreldra- og fæðingarorlofs og hækkun hámarksgreiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Hægt er að lesa frumvarpið hér.

Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi umsögn:


Kvenréttindafélags Íslands fagnar þessu frumvarpi sem kveður á um lengingu fæðingarorlofs og hækkun mánaðarlegra hámarksgreiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Núverandi fæðingarorlofskerfi skapar foreldrum ungra barna ekki það fjárhagslega öryggi sem þarf að vera til staðar þegar fólk tekur á sig jafn stóra skuldbindingu og að eignast barn. Framfærsla er bæði of lág og fæðingarorlof of stutt. Það er því löngu tímabært að styðja við fæðingarorlofskerfið.

Reynsla síðustu ára hefur sýnt að með lækkun hámarksgreiðslna hefur dregið úr fæðingarorlofstöku feðra. Það er því afar brýnt jafnréttismál að hámarksgreiðslumarkið sé hækkað til þess að feður haldi áfram að nýta rétt sinn til fæðingarorlofstöku. Það eykur jafnrétti kynja á vinnumarkaði en skiptir ekki síður máli varðandi tengslamyndun feðra við börn sín sem bæði stuðlar að auknum lífsgæðum barna og feðra og auknu jafnrétti kynja innan heimilisins.

Kvenréttindafélag Íslands vill einnig koma á framfæri þeirri skoðun sinni að réttindum á vinnumarkaði eigi ekki að deila með öðrum og telur því eðlilegt að hvort foreldri um sig eigi 6 mánaða sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs.

Í greinargerð með frumvarpinu er bent á að í frumvarpinu er ekki kveðið á um hækkun lágmarksgreiðslna eða fæðingarstyrkja sem nýtast þeim sem eru í lágu starfshlutfalli, í námi eða utan vinnumarkaðar. Kvenréttindafélag Íslands telur mjög mikilvægt að í framhaldi af breytingu á fæðingarorlofslöggjöfinni verði greiðslur til þeirra sem eru fyrir utan vinnumarkað eða jaðarsettir á vinnumarkaði hækkaðar að sama marki.

Jafn réttur foreldra til fæðingar- og foreldraorlofs er ein grundvallarstoð jafnréttis kynjanna.

Aðrar fréttir