Heilir og sælir, kæru félagar.
Við vonum að þið hafið haft það sem allra best. Ástandið sem ríkt hefur vegna COVID-19 veirunnar hefur reynst okkur öllum erfitt, einnig okkur hjá Kvenréttindafélaginu, en starfsemi okkar hefur verið í lágmarki síðustu vikurnar.
Það vekur okkur von í brjósti að finna fyrir þeim samhug sem ríkir í samfélaginu og einlægum vilja til að bretta upp ermarnar og skapa saman betra samfélag í kjölfar heimsfaraldursins. Við í Kvenréttindafélaginu hyggjumst taka fullan þátt í þeirri umræðu, að tryggja það að kynjajafnrétti og kvenfrelsi sé rauður þráður í öllum aðgerðum sem framundan eru. Við hlökkum til að taka þátt í þessari endurreisn með ykkar hjálp.
Líkt og önnur samtök þurfti Kvenréttindafélagið að fresta aðalfundi í ljósi aðstæðna, en nú er vor í lofti og smám saman er verið að aflétta samkomubanni.
Kvenréttindafélag Íslands boðar því hér með til aðalfundar mánudaginn 25. maí 2020 kl. 17:00 – 19:00.
Fundarstaður
Fundurinn verður haldinn bæði rafrænt og í raunheimum.
Við bjóðum ykkur velkomin á fundinn í Veröld, húsi Vigdísar. Þar er fullt aðgengi og hægt að halda 2 metra fjarlægð milli fundargesta.
Fundurinn er einnig haldinn á rafrænum vettvangi, í gegnum Zoom fjarfundarkerfið.
Kosningar á aðalfundi eru rafrænar.
Skráning á aðalfund
Öll sem hafa áhuga til að sitja aðalfund Kvenréttindafélags Íslands 2020, hvort eð er í Veröld eða rafrænt, eru beðin að skrá sig til þátttöku hér: https://forms.gle/U9L1bkXx7pUZVrvf8.
Rafrænn kjörseðill og krækja í rafrænt fundarherbergi eru send öllum skráðum þátttakendum föstudaginn 22. maí 2020.
Kallað eftir framboðum
Á fundinum er kosið um:
- þrjá fulltrúa í stjórn Kvenréttindafélags Íslands til tveggja ára
- þrjá varamenn í stjórn Kvenréttindafélags Íslands til eins árs
- tvo skoðunarmenn reikninga Kvenréttindafélags Íslands
- fimm stjórnarmenn og fimm varamenn í stjórn Menningar- og minningarsjóðs kvenna
- tvo fulltrúa Kvenréttindafélagsins í Mannréttindaskrifstofu Íslands
- einn fulltrúa Kvenréttindafélagsins í Almannaheill
- tvo fulltrúa í stjórn og á aðalfund European Women’s Lobby – EWL.
Tilkynnið framboð í netfang postur@kvenrettindafelag.is, í síðasta lagi 18. maí 2020.
Allir skuldlausir félagar hafa kjörgengi og atkvæðisrétt á fundinum en kröfur fyrir félagsgjöldum 2020–2021 munu birtast í netbönkum félaga á næstu dögum.
Tillögur stjórnar fyrir aðalfund
Á fundinum er lögð til samþykktar breytingartillaga á stefnuskrá Kvenréttindafélagsins. Einnig er lögð fram tillaga þess efnis að Kvenréttindafélagið gangi úr Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur.
Tillögur og ályktanir skulu berast til stjórnar í netfang postur@kvenrettindafelag.is, í síðasta lagi 18. maí 2020.
Dagskrá fundar
- Setning aðalfundar
- Kosning fundarstjóra og fundarritara
- Lögmæti fundarins staðfest
- Skýrslur stjórna KRFÍ og MMK lagðar fram. Lesið ársskýrslu Kvenréttindafélagsins hér.
- Endurskoðaðir reikningar KRFÍ og MMK lagðir fram til samþykktar
- Ákvörðun tekin um upphæð félagsgjalds
- Tillögur um framkomnar lagabreytingar
- Kosning stjórnar
- Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga
- Kosning stjórnar MMK
- Kosning fulltrúa í nefndir og samtök sem KRFÍ á aðild að, þar á meðal aðal- og varafulltrúa á aðalfund EWL.
- Önnur mál
- Stjórn Kvenréttindafélags Íslands leggur fyrir aðalfund félagsins breytingartillögu á stefnuskrá félagsins. Lesið breytingartillöguna og rökstuðning hér.
- Stjórn Kvenréttindafélags Íslands leggur til við aðalfund Kvenréttindafélagsins að félagið gangi úr Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur. Lesið breytingartillöguna og rökstuðning hér.
- Ný aðildarfélög að Kvenréttindafélaginu: Femínísk fjármál, Félag um Fjöruverðlaunin, Rótin og Samtök um kvennaathvarf.
- Fundi slitið