Aðalfundur Kvenréttindafélagsins 25. maí kl. 17:00

Heilir og sælir, kæru félagar.

Við vonum að þið hafið haft það sem allra best. Ástandið sem ríkt hefur vegna COVID-19 veirunnar hefur reynst okkur öllum erfitt, einnig okkur hjá Kvenréttindafélaginu, en starfsemi okkar hefur verið í lágmarki síðustu vikurnar.

Það vekur okkur von í brjósti að finna fyrir þeim samhug sem ríkir í samfélaginu og einlægum vilja til að bretta upp ermarnar og skapa saman betra samfélag í kjölfar heimsfaraldursins. Við í Kvenréttindafélaginu hyggjumst taka fullan þátt í þeirri umræðu, að tryggja það að kynjajafnrétti og kvenfrelsi sé rauður þráður í öllum aðgerðum sem framundan eru. Við hlökkum til að taka þátt í þessari endurreisn með ykkar hjálp.

Líkt og önnur samtök þurfti Kvenréttindafélagið að fresta aðalfundi í ljósi aðstæðna, en nú er vor í lofti og smám saman er verið að aflétta samkomubanni. 

Kvenréttindafélag Íslands boðar því hér með til aðalfundar mánudaginn 25. maí 2020 kl. 17:00 – 19:00. 

 

Fundarstaður

Fundurinn verður haldinn bæði rafrænt og í raunheimum. 

Við bjóðum ykkur velkomin á fundinn í Veröld, húsi Vigdísar. Þar er fullt aðgengi og hægt að halda 2 metra fjarlægð milli fundargesta. 

Fundurinn er einnig haldinn á rafrænum vettvangi, í gegnum Zoom fjarfundarkerfið.

Kosningar á aðalfundi eru rafrænar.

 

Skráning á aðalfund

Öll sem hafa áhuga til að sitja aðalfund Kvenréttindafélags Íslands 2020, hvort eð er í Veröld eða rafrænt, eru beðin að skrá sig til þátttöku hér: https://forms.gle/U9L1bkXx7pUZVrvf8

Rafrænn kjörseðill og krækja í rafrænt fundarherbergi eru send öllum skráðum þátttakendum föstudaginn 22. maí 2020.

 

Kallað eftir framboðum

Á fundinum er kosið um:

 • þrjá fulltrúa í stjórn Kvenréttindafélags Íslands til tveggja ára
 • þrjá varamenn í stjórn Kvenréttindafélags Íslands til eins árs 
 • tvo skoðunarmenn reikninga Kvenréttindafélags Íslands
 • fimm stjórnarmenn og fimm varamenn í stjórn Menningar- og minningarsjóðs kvenna
 • tvo fulltrúa Kvenréttindafélagsins í Mannréttindaskrifstofu Íslands
 • einn fulltrúa Kvenréttindafélagsins í Almannaheill
 • tvo fulltrúa í stjórn og á aðalfund European Women’s Lobby – EWL.

Tilkynnið framboð í netfang postur@kvenrettindafelag.is, í síðasta lagi 18. maí 2020.

Allir skuldlausir félagar hafa kjörgengi og atkvæðisrétt á fundinum en kröfur fyrir félagsgjöldum 2020–2021 munu birtast í netbönkum félaga á næstu dögum.

 

Tillögur stjórnar fyrir aðalfund

Á fundinum er lögð til samþykktar breytingartillaga á stefnuskrá Kvenréttindafélagsins. Einnig er lögð fram tillaga þess efnis að Kvenréttindafélagið gangi úr Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur.

Tillögur og ályktanir skulu berast til stjórnar í netfang postur@kvenrettindafelag.is, í síðasta lagi 18. maí 2020. 

 

Dagskrá fundar

 1. Setning aðalfundar
 2. Kosning fundarstjóra og fundarritara
 3. Lögmæti fundarins staðfest
 4. Skýrslur stjórna KRFÍ og MMK lagðar fram. Lesið ársskýrslu Kvenréttindafélagsins hér.
 5. Endurskoðaðir reikningar KRFÍ og MMK lagðir fram til samþykktar
 6. Ákvörðun tekin um upphæð félagsgjalds
 7. Tillögur um framkomnar lagabreytingar
 8. Kosning stjórnar
 9. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga
 10. Kosning stjórnar MMK
 11. Kosning fulltrúa í nefndir og samtök sem KRFÍ á aðild að, þar á meðal aðal- og varafulltrúa á aðalfund EWL.
 12. Önnur mál
  1. Stjórn Kvenréttindafélags Íslands leggur fyrir aðalfund félagsins breytingartillögu á stefnuskrá félagsins. Lesið breytingartillöguna og rökstuðning hér
  2. Stjórn Kvenréttindafélags Íslands leggur til við aðalfund Kvenréttindafélagsins að félagið gangi úr Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur. Lesið breytingartillöguna og rökstuðning hér. 
  3. Ný aðildarfélög að Kvenréttindafélaginu: Femínísk fjármál, Félag um Fjöruverðlaunin, Rótin og Samtök um kvennaathvarf.
 13. Fundi slitið