Mynd: Lóa Hjálmtýsdóttir / betrafæðingarorlof.is

Velkomin á fyrirlestur og pallborðsumræður um fæðingarorlof á Íslandi, á #kynjaþingheima 13. nóvember kl. 14:00.

Takið þátt á Zoom: https://us02web.zoom.us/j/89617396921

Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp þar sem réttur til fæðingarorlofs er lengdur í tólf mánuði og jafnt skipt á milli foreldra. Frumvarpið er stórt skref í átt til kynjajafnréttis, en kjaramisrétti kynjanna má að hluta til rekja til þeirrar staðreyndar að konur bera meiri ábyrgð á ólaunaðri vinnu á heimilum, sérstaklega eftir að þær hafa eignast börn.

Jafnt fæðingarorlof foreldra hefur enn fremur jákvæð áhrif á fjölskyldur í landinu. Sjálfstæður réttur feðra til fæðingarorlofs hefur leitt til þess að feður taka meiri þátt í umönnun barna sinna og hefur jákvæð áhrif á alhliða þroska barna.

Á Kynjaþingi 2020 kemur fram fræðafólk sem hefur helgað sig rannsóknum á fæðingarorlofinu og ræðir málin. Einnig verður ný upplýsingasíða um fæðingarorlofið, www.betrafæðingarorlof.is, formlega opnuð. Að síðunni og viðburðinum standa Kvenréttindafélag Íslands, Femínísk fjármál, FKA – Félag kvenna í atvinnulífinu, ASÍ – Alþýðusamband Íslands, BHM – Bandalags háskólamanna og BSRB.

Dr. Ásdís Aðalbjörg Arnalds heldur fyrirlestur um fæðingarorlof á Íslandi. Í kjölfarið eru pallborðsumræður með Ásdísi, dr. Ingólfi V. Gíslasyni og dr. Sunnu Kristínu Símonardóttur. Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB stýrir umræðum.

Aðrar fréttir