Frumvarp til breytinga á lögum um útlendinga verður tekið fyrir í Alþingi á allra næstu vikum. Fjölmörg samtök og einstaklingar sem vinna með fólki á flótta hafa lýst því yfir að frumvarpið sé veruleg afturför í mannréttindavernd hópsins og stangist mögulega á við mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna.
Aðstandendur fundarins telja afar mikilvægt að vekja athygli sem flestra á þeim veruleika sem blasa mun við hljóti frumvarpið afgreiðslu frá Alþingi. Frumvarpið veitir til að mynda heimild til þvingaðra líkamsrannsókna á umsækjendum um alþjóðlega vernd, að fólk sé svipt þjónustu eftir að úrskurður um brottvísun er kveðin upp og það gerir mörgum viðkvæmum hópum enn erfiðara fyrir að fá vernd á Íslandi.
Mikilvægt er að við sem berum hag fólks á flótta fyrir brjósti kynnum okkur vel þetta frumvarp og veitum stjórnvöldum aðhald þegar kemur að mannréttindamálum.
Á þessum fundi segja sérfræðingar okkur frá því hvaða þýðingu og afleiðingar breytingarnar munu hafa og setja frumvarpið í lagalegt, alþjóðlegt og pólitískt samhengi.
Fram koma:
- Claudia Wilson
- Eyrún Ólöf Sigurðardóttir
- Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir
- Andrés Ingi Jónsson
Öll velkomin, aðgangur ókeypis. Viðburðurinn fer fram í stofu N-131 í Öskju, Háskóla Íslands og í beinu streymi. Húsnæðið er aðgengilegt fyrir fatlað fólk.
Að viðburðinum standa Kvenréttindafélag Íslands, No Borders, Q – félag hinsegin stúdenta, Refugees in Iceland, Samtökin ’78, Solaris, Stúdentaráð HÍ, WOMEN in Iceland og Þroskahjálp.
Kvenréttindafélagið skilaði inn umsögn um málið, sem sjá má hér.