Kvenréttindafélag Íslands hefur tilheyrt alþjóðasamtökunum International Alliance of Women frá því að félagið var stofnað 1907.
Reyndar getum við þakkað IAW fyrir því að sérstakt kvenréttindafélag var stofnað hér á landi yfir höfuð.
Árið 1904 ferðaðist Bríet Bjarnhéðinsdóttir, þá ritstýra hins geysivinsæla Kvennablaðs, um Norðurlöndin og kynntist þar kvenréttindabaráttunni sem kraumaði í kynsystrum okkar á meginlandinu. Þegar hún sneri aftur heim til Íslands var hún staðföst í því að hefja baráttuna hér á landi.
Erlendar kvenréttindakonur hvöttu Bríeti til að stofna sérstakt kvenréttindafélag til að halda utan um þessa baráttu og til þess að geta gengið í alþjóðasamband súfragetta, International Woman Suffrage Alliance.
Þessi samtök voru stofnuð árið 1902, og starfa enn í dag, þó undir nýju heiti, en árið 1946 var samþykkt að samtökin skyldu heita International Alliance of Women: Equal Rights – Equal Responsibilities.
41 samtök út um allan heim eiga aðild að IAW. Samtökin hafa áheyrnarrétt hjá Sameinuðu þjóðunum, þátttökurétt hjá Evrópuráðinu og fulltrúa hjá Arababandalaginu, Afríkubandalaginu og öðrum alþjóðlegum stofnunum.
IAW sendir frá sér mánaðarlegt tölvubréf með fréttir um stöðu kvenna út um allan heim. Hægt er að skrá sig í áskrift að þessu tölvubréfi á síðu samtakanna, hér.