Mánudaginn 18. september verður haldin fagráðstefna um stafrænt ofbeldi á Hallveigarstöðum, Túngötu 14.

Stafrænt ofbeldi og stafrænt kynferðisofbeldi er sívaxandi vandamál í samfélaginu. Stafrænt ofbeldi felur m.a. í sér áreitni, einelti, kúgun, hótanir, auðkennisþjófnað, ólöglega miðlun á aðgengisupplýsingum og einkagögnum og dreifingu á myndum og myndböndum án samþykkis þess sem á myndefninu er.

Samkvæmt skýrslu Evrópunefndar frá árinu 2014 hefur ein af hverjum tíu konum orðið fyrir kynferðislegri áreitni eða eltihrelli í gegnum tæknibúnað. Eins benda erlendar rannsóknir til þess að alvarlegt stafrænt ofbeldi beinist áberandi frekar að konum en körlum, sérstaklega ungum konum og að þessi tegund ofbeldi/áreitis dragi úr þátttöku þolenda í samfélagsumræðum á netinu. Í nýlegri rannsókn í Bandaríkjunum kom fram að 26% þeirra sem orðið höfðu fyrir stafrænu ofbeldi eða áreiti hafa hætt að nota netið, annað hvort hætt alveg á samfélagsmiðlum, hætt að nota snjallsíma, eða alveg hætt netnotkun.

Kvenréttindafélag Íslands stendur fyrir heilsdagsráðstefnu þar sem fólk sem vinnur að málum sem tengjast stafrænu ofbeldi og fólk sem hefur sérþekkingu á málefninu koma saman og ræða málin.

Fyrir hádegi verður litið á stöðuna eins og hún er í dag og eftir hádegi verður reynt að líta til framtíðar, til hverra ráða við getum gripið til að berjast gegn þessari vá.

Ráðstefnan er opin öllum. Skráningargjald er 4.500 kr. og í því er falinn hádegismatur og eftirmiðdagskaffi.

Athugið, hjólastólalyfta er í húsinu sem tekur 225 kg.

Skráið ykkur á síðu Kvenréttindafélagsins, kvenrettindafelag.is/fagradstefna2017.

 

Dagskrá

Staðan í dag

9:30–10:00    María Rún Bjarnadóttir, Sussex University. Lagaramminn og stafrænt ofbeldi

10:00–10:30 Ásta Jóhannsdóttir, Kvenréttindafélag Íslands. Rannsókn á leit þolenda stafræns ofbeldis að réttlæti

10:30–11:00 Hildur Friðriksdóttir, Háskólinn á Akureyri: Rannsókn á umfangi stafræns ofbeldis á Íslandi

11:00–11:30 Júlía Birgisdóttir: Stafrænt ofbeldi – Reynsla þolanda.

11:30–12:30 Hádegismatur

Áskoranir og lausnir

12:30–12:45 Brynhildur Björnsdóttir. Myndin af mér. Kynning á stuttmynd um stafrænt ofbeldi

12:45–13:15 Árni Þór Sigmundsson aðstoðaryfirlögregluþjónn og Hulda Elsa Björgvinsdóttir yfirmaður ákærusviðs og staðgengill lögreglustjóra Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu

13:15–14:15 Andrés Ingi Jónsson (VG) og Hanna Katrín Friðriksson (Viðreisn). Alþingi.

14:15–15:00 Umræður þátttakenda

Kaffi og kökur

 

Ráðstefnan er styrkt af velferðarráðuneytinu

Aðrar fréttir