Femínískar alþingiskosningar 2021

Fulltrúar flokka í framboði til Alþingis 2021 ræddu saman um aðgerðir gegn fjölþættri mismunun, útilokun og jaðarsetningu, 16. september 2021.

Öllum framboð sem mælst höfðu með yfir 5% fylgi í könnunum síðustu þrjá mánuði var boðið að senda fulltrúa sína á fundina og þátt tóku: Kolbrún Baldursdóttir (Flokkur fólksins), Líneik Anna Sævarsdóttir og Sóley Ragnarsdóttir (Framsóknarflokkurinn), Vilborg Þóranna Kristjánsdóttir (Miðflokkkurinn), Lenya Rún Taha Karim (Píratar), Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir (Samfylkingin), Hildur Sverrisdóttir (Sjálfstæðisflokkurinn), María Pétursdóttir (Sósíalistaflokkurinn), Ingunn Rós Kristjánsdóttir (Viðreisn) og Orri Páll Jóhannsson (Vinstri hreyfingin – grænt framboð). Fundarstjóri er Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir.

Kvenréttindafélag Íslands, Samtök um kvennaathvarf og Femínísk fjármál stóðu að þessum fundi ásamt fleirum í aðdraganda kosninganna.

Sjá alla fjóra fundi hér.

Spurt er:

Hvaða aðgerðir ætlar flokkur ykkar að standa fyrir til að uppræta fjölþætta mismunun og tryggja jafna stöðu fólks óháð kyni, fötlun, uppruna, litarhætti, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum, kyntjáningu, aldri, búsetu og lífsskoðun.

Flokkur fólksins

Flokkur fólksins fordæmir alla mismunun hvort heldur hún á rætur að rekja til stöðu, kynja, fötlunar, aldurs, búsetu eða lífsskoðana. Flokkur fólksins er stofnaður til að útrýma hvers lags mismunun og óréttlæti og hefur sett áhersluna á viðkvæma hópa og þá sem hafa verið beittir óréttlæti eða ofbeldi af hvers lags tagi. Flokkurinn hefur lagt fram fjölda mála sem lúta að bættum kjörum,  almennu réttlæti og mannréttindum svo sem að hækka bætur til þolenda, afnema skerðingar á atvinnutekjum hjá öldruðum og öryrkjum og að útrýma mismunun vegna sárafátæktar. Við í Flokki fólksins munum á öllum tímum styðja við aðgerðir sem stuðla að jafnri stöðu fólks og komist Flokkur fólksins til áhrifa á Alþingi mun hann halda áfram að leggja fram þingmál og frumvörp til að uppræta fjölþætta mismunun og styðja allar aðgerðir sem tryggja jafna stöðu fólks óháð kyni, fötlun, uppruna, litarhætti, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum, kyntjáningu, aldri, búsetu og lífsskoðun. Við viljum réttlæti, jafnrétti og velferð fyrir alla.

Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur, borgarfulltrúi og skipar 2. sæti Flokks fólksins í Reykjavík Norður

Framsóknarflokkurinn

Framsóknarflokkurinn setur sýn í mannréttindamálum fram í sinni grundvallarstefnuskrá: „Við berjumst fyrir mannréttindum, virðingu fyrir einstaklingnum og fjölskyldunni. Við höfnum hvers konar mismunun sem gerir greinarmun á fólki t.d. eftir kynþætti, kynferði, tungu, trú, þjóðerni, kynhneigð, búsetu eða stjórnmálaskoðunum. Við munum ávallt verja skoðana- og tjáningarfrelsi, trúfrelsi og friðhelgi einkalífs.“ Um jafnræði þegnanna segir:  „Við setjum manngildi ofar auðgildi og viljum að hver og einn hafi sama rétt til menntunar, þroska og grundvallarlífskjara óháð uppruna, heilsu og efnahag.“

Þessi grunngildi viljum við hafa að leiðarsljósi og spegla allar okkar ákvarðanir í, Framsókn hefur ýmist haft forgöngu um eða stutt hvers konar aðgerðir sem stuðla að jafnrétti hvort sem það er í formi lagasetningar eða aðgerðaáætlana, má þar nefna frumvarp um kynrænt sjálfræði, framkvæmdaáætlanir í jafnréttismálum og áherslu á jafnrétti foreldra við breytingar á  fæðingarorlofslögum og áherslu á kynhlutlaust orðalag í þeim lögum.

Undirbúningur að stofnun sjálfstæðrar mannréttindastofnunar stendur yfir hjá dómsmálaráðuneytinu og markvisst er búið að gera að allar nauðsynlegar lagabreytingar til að styðja við þá vinnu af hálfu félagsmálaráðuneytisins.

Miðflokkurinn

Píratar

 • Píratar hafa lengi lagt áherslu á að uppræta margþætta mismunun í sinni jafnréttisstefnu Tryggja þarf möguleika allra til þátttöku í lýðræðissamfélaginu. Raunhæfir möguleikar á þátttöku, ekki eingöngu réttur. 
 • Styrkja þarf og styðja við grasrótarstarfsemi sem ýtir undir jafnrétti allra. 
 • Við alla stefnumótun skal tekið mið af jafnréttissjónarmiðum og hættunni á margþættri mismunun.
 • Við úthlutun styrkja og við fjárhagsáætlanagerð skal horft til fjölbreytileika styrkþega.
 • Styrkja þarf stöðu kvenna og hinsegin fólks af erlendum uppruna.
 • Námsefni vinni gegn fordómum og staðalímyndum. 
 • Almenna jafnréttislöggjöfin nái yfir fleiri mismunabreytur en kyn, þjóðerni og kynþátt. 
 • Ný stjórnarskrá. 
 • Lögregla, ákæruvald og dómstólar fá fræðslu, þjálfun og lagaleg úrræði til að greina og vinna gegn hatursglæpum og hatursáróðri. 
 • Sjálfstæð Mannréttindastofnun verði sett á fót. 
 • Meta þarf kerfislægt launamisrétti milli starfsstétta og jafna launakjör. 
 • Tryggja jafnt aðgengi að internetinu fyrir alla samfélagshópa, óháð efnahag, þjóðfélagsstöðu, kyni- og kynhneigð. 
 • Tryggja jafnt aðgengi að réttarkerfinu.

Samfylkingin

Samfylkingin er femínískur flokkur sem berst fyrir mannréttindum. Samfylkingin ætlar að:

 • Stofna Ofbeldisvarnarráð, sem mun taka utan um jaðarhópa sem eru sérstaklega berskjaldaðir vegna margþættrar mismununar. Tryggja betri réttarstöðu þolenda í ofbeldismálum, m.a. með að tryggja aðild að málum, stytta málsmeðferðartíma, lögbinda rétt til launaðs leyfis í kjölfar brots, rýmka gjafsóknarreglur og tryggja brotaþolum langtímastuðning meðan mál eru til rannsóknar.
 • Lögfesta samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks, stofna Mannréttindastofnun og fjölga NPA samningum. 
 • Samfylkingin hefur gefið út 13 atriða kosninga fyrir mál hinsegin fólks, og fékk hæstu einkunn allra flokka hjá Samtökunum 78. Nánar hér: https://xs.is/hinsegin-2021 
 • Betra fæðingarorlofskerfi er janfréttismál: hækka þak á greiðslur, brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Hækka fæðingarstyrki.
 • Berjast gegn fátækt, m.a. með öruggu húsnæði, hækkun greiðslna í almannatryggingakerfinu, öflugum barnabótum.
 • Ráðast í þjóðarátak í geðheilbrigðisþjónustu.
 • Styðja skóla til að efla íslensku- og móðurmálskennslu fyrir börn sem hafa ekki íslensku að móðurmáli.
 • Ný stjórnarskrá sem tryggir m.a. mannréttindi og jafna stöðu fólks.
 • Taka betur á móti fólki af erlendum uppruna og fólki á flótta með mannúð að leiðarljósi, láta af þrengstu túlkunum á útlendingalögum við meðferð mála. Hætta að vísa burt barnafjölskyldum sem fest hafa hér rætur og stöðva frávísanir til óöruggra ríkja.
 • Við ætlum að standa við þessi loforð og vitum hvernig við ætlum að fjármagna þau!

Sósíalistaflokkurinn

Sósíalistaflokkur Íslands vill bæta kjör almennings hvort heldur launþega, atvinnulausra lífeyrisþega, námsmanna eða heimavinnandi og tryggja öllum fríia grunnþjónustu svo sem heilbrigðisþjónustu, gott húsnæðiskerfi og almenna leiðsögn innan velferðarkerfisins. Þá viljum við tryggja fræðslu inn í allar stofnanir samfélagsins og vinnustaði um kynbundið ofbeldi, einelti og hverskyns valdaójafnvægi og mismunun í gegnum sérstaka stofnun Ofbeldiseftirlits.
Þá séu upplýsingar til almennings ávallt fullnægjandi og vel aðgengilegar, þýddar eða hljóðsettar og eins og segir í jafnréttisstefnunni okkar að innan stjórnsýslunnar og stjórnkerfisins sé sérstakur gaumur gefinn að margfaldri mismunun.

Til að tryggja að ekki sé troðið á mannréttindum fólks skal taka upp samvinnu við alla minnihluta- og eða notendahópa og miða alla áætlanagerð ríkis og sveitarfélaga útfrá stéttavinkli og fjölbreytileika en ekki einungis út frá kynjum. Þar er mikilvægt að skoða hvernig þættir eins og efnahagsleg staða , uppruni, hinseginleiki eða fötlun móta veruleika fólks.

Sjálfstæðisflokkurinn

Sjálfstæðisflokkurinn er málsvari jafnréttis og stefnir að upprætingu þeirrar mismununar sem tilgreind er í spurningunni. Flokkurinn hefur farið með dómsmálaráðuneytið undanfarin ár og sérstakur starfshópur er þar að störfum sem hefur það hlutverk að leita leiða til þess að koma sjálfstæðri innlendri mannréttindastofnun á fót. Stofnun sem kæmi í stað Mannréttindaskrifstofu Íslands og uppfyllti Parísarviðmiðin sem svo eru nefnd. Slík stofnun hefði með höndum rannsóknir, fræðslu og eftirlit með stöðu hvers kyns mannréttinda í landinu.  Þess ber að geta að dómsmálaráðuneytið hefur stutt Mannréttindaskrifstofu Íslands með fjárframlögum undanfarin ár og var styrkur ráðuneytisins til skrifstofunnar tvöfaldaður í árslok 2019.  Auk framangreinds ber að geta annarra atriða sem máli skipta í jafnréttisbaráttunni. Framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum var þannig samþykkt á Alþingi árið 2019 og gildir fyrir árin 2020-2023. Henni er ætlað það hlutverk að skilgreina stefnu stjórnvalda á hverjum tíma og lýsa verkefnum sem fela í sér beinar aðgerðir í þágu kynjafnréttis. Heildarlög um jafnrétti kynjanna, lög nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, tóku gildi í janúar 2021. Markmið laganna er að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Í lögunum er í fyrsta skipti ákvæði um bann við fjölþættri mismunun þ.e. mismunun á grundvelli fleiri en einnar mismununarástæðu sem verndaðar eru í löggjöf um jafnréttismál. Þannig er leitast við að tryggja betur vernd einstaklinga sem eru í hvað viðkvæmastri stöðu, svo sem erlendra og fatlaðra kvenna. Þá er unnið að breytingum á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, sem fela í sér að það geti leitt til þyngri refsingar ef brot telst hatursglæpur þ.e. ef rekja má brot til þjóðernis- eða þjóðlegs uppruna, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, fötlunar, kyneinkenna, kynhneigðar, kynvitundar eða annarra sambærilegra þátta. Í sama frumvarpi er stefnt að því að leggja til að fleiri hópum verði veitt vernd á grundvelli ákvæðis 233. gr. a. laganna um hatursorðræðu, þar á meðal fötluðu fólki og fólki með ódæmigerð kyneinkenni. 

Viðreisn

Viðreisn leggur áherslu á að tryggja öllum íbúum landsins jöfn tækifæri og jafnan lagalegan rétt. Gildir þetta jafnt um vinnumarkað, borgaraleg réttindi, möguleika til náms, félagslega þætti. Viðreisn telur mikilvægt að horfa sérstaklega til fjölþættrar mismununar og tryggja að aðgerðir stjórnvalda til að uppræta mismunun á Íslandi. Viðreisn vill til dæmis tryggja lagaleg réttindi hinsegin fólks,  rýmka kosningarétt, rýmka atvinnu- og dvalarréttindi fólks utan EES-svæðisins og auka rétt útlendinga sem stunda hér nám til að setjast að hér á landi þegar að námi lýkur. Viðreisn hafnar allri mismunun á fólki á grundvelli jaðarsetningar og tekur skýra afstöðu gegn hvers kyns hatri gagnvart jaðarsettum hópum samfélagsins. Inngilding (e. inclusion) í íslenskt samfélag á að vera meginstef á öllum sviðum.

Vinstri hreyfingin - grænt framboð

VG telur að fjölbreytileiki sé styrkur hvers samfélags og í frumvarpi forsætisráðherra til jafnréttislaga sem Alþingi samþykkti í lok síðasta árs, er í fyrsta sinn kveðið á um bann við fjölþættri mismunun í íslenskri löggjöf. VG vill tryggja jöfn tækifæri allra til menntunar, heilsu og þátttöku í samfélaginu og vinna gegn stéttaskiptingu af öllu tagi, einkum þegar viðkemur börnum. Efla þarf þjónustu við innflytjendur og fólk á flótta. Lögfesta skal samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks, breyta lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna og fjölga mismunabreytum þar. Mikilvægt er að hafa víðtækt samráð við hagsmunaaðila við stefnumótun.  

Síðast en ekki síst þarf að breyta viðhorfi samfélagsins án þann hátt að það verði einfaldlega ekki í boði að mismuna fólki, heldur sé þvert á móti lögð áhersla á jöfn tækifæri fólks óháð bakgrunni og aðstæðum. Til að svo geti orðið þurfa öll svið samfélagsins að vinna saman. 

Femínískar alþingiskosningar 2021