Kvenréttindafélag Íslands og Hagsmunasamtök evrópskra kvenna – European Women’s Lobby sendu í dag bréf til Katrínar Jakobsdóttur forsætis- og jafnréttismálaráðherra þar sem hún er hvött til að tryggja þátttöku Íslands í samevrópskri rannsókn á umfangi og eðli ofbeldis gegn konum í EEA ríkjum.
Framkvæmdastjórn ESB mun árið 2021 framkvæma rannsókn í löndum EEA á umfangi og eðli ofbeldis gegn konum og öðru ofbeldi í samskiptum, eins og kveðið er á um í jafnréttisáætlun ESB 2020–2025. Hagstofa Evrópusambandsins, EUROSTAT, sér um framkvæmd rannsóknarinnar ásamt því að bera niðurstöður hennar saman við fyrri rannsókn sem framkvæmd var árið 2012 af Evrópustofnun grundvallarmannréttinda – European Union Agency for Fundamental Rights (FRA).
Mikilvægt er að Ísland taki þátt í þessari nýju rannsókn, en við vorum ekki eitt af þátttökuríkjum árið 2012.
Kvenréttindafélagið og European Women’s Lobby sendu í bréfinu eftirfarandi hvatningu til forsætis- og jafnréttismálaráðherra:
Hagsmunasamtök kvenna í Evrópu – European Women‘s Lobby og Kvenréttindafélag Íslands hvetja þig kæri forsætis- og jafnréttismálaráðherra til að staðfesta þátttöku Íslands í þessari rannsókn sem mun veita íslenskum stjórnvöldum upplýsingar sem gagnast til að bæta stefnumótun í málaflokknum, hvort sem er á landsvísu eða á Evrópuvísu, og til að móta viðeigandi og markvissar aðgerðir gegn ofbeldi.