Ræðumaraþoni Kvenréttindafélags Íslands lauk á hádegi í dag, 24. október, og hafði þá staðið í heilan sólarhring í Kringlunni.
Safnað var áheitum sem renna eiga í Menningar- og minningarsjóð kvenna.
Ríflega eitt hundrað konur komu fram og sumar oftar en einu sinni með vandaðan ræðuflutning, upplestur og jafnvel uppákomur.
Sú yngsta sem tók til máls var aðeins sjö ára gömul, en sú elsta vel yfir sjötugt og einnig komu fram konur frá ýmsum löndum. Að vonum var mikið fjallað um stöðu jafnréttismála almennt, en konurnar ræddu ótal margt fleira, s.s. konur úr Íslandssögunni, konur og heimilisofbeldi, stöðu kvenna í öðrum heimsálfum, mikilvægi orðræðu varðandi afstöðu til kynjanna, konur og hryðjuverk, konur og menntun, konur í stjórnmálum og stéttabaráttu, svo eitthvað sé nefnt.
Mörgum kvennanna voru hugleiknir neikvæðir atburðir í jafnréttisbaráttunni nýverið, s.s. vægur dómur Héraðsdóms varðandi heimilisofbeldi og neikvæð viðbrögð ráðamanna við gagnrýni á vanefndir á jafnréttisáætlun.
Konurnar hvöttu eindregið til þess að á næsta ári, þegar 30 ár verða liðin frá Kvennafrídeginum, leggi konur aftur niður vinnu og flykkist saman til að berjast fyrir jafnrétti kynjanna.
Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra tók fyrst til máls og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra veitti styrk til þessa framtaks. KRFÍ færir þeim, og ekki síst öllum þeim konum sem lögðu þessu lið, bestu þakkir fyrir.
Nánari upplýsingar veitir Margrét Sverrisdóttir, varaformaður KRFÍ s. 822-1996.