Í ár hljóta þrjár konur friðarverðlaun Nóbels.
Ellen Johnson Sirleaf er fyrsta konan sem er lýðræðislega kosin forseti í Afríku. Sirleaf tók við völdum í Líberíu 2006 og síðan þá hefur hún unnið að friði í þessu landi sem gengið hefur í gegnum tvær borgarastyrjaldir síðan 1989, að lýðræðislegum umbótum og að því að styrkja stöðu kvenna.
Leymah Gbowee er aðeins 39 ára. Hún er einnig frá Líberíu og hefur unnið ötullega að friði þar í landi með því að virkja konur. Hún stofnaði Women of Liberia Mass Action for Peace þar sem konur af mismunandi ættbálkum og trúarflokkum í landinu komu saman, mótmæltu og knúðu fram fundi milli hinna stríðandi fylkinga.
Tawakkul Karman er blaðamaður frá Yemen, stjórnmálamaður og stofnandi Women Journalists Without Chains. Síðan í maí 2007 hefur hún staðið fyrir vikulegum mótmælum og eftir byltingarnar í Túnis og Egyptalandi snemma árs 2011 hefur hún verið fremst í flokki mótmæla í Yemen, en þar hefur hún verið kölluð „móðir byltingarinnar“.
Nóbelsverðlaunin fara í ár til þessara þriggja kvenna og í tilkynningu segir nóbelsverðlaunanefndin að ómögulegt sé að öðlast lýðræði og frið á jörðu án þess að konur njóti sömu tækifæra og karlar til að hafa áhrif á samfélag sitt og umhverfi.
Það er von norsku nefndarinnar um friðarverðlaun Nóbels að veiting verðlaunanna til Ellen Johnson Sirleaf, Leymah Gbowee og Tawakkul Karman muni hjálpa til við að binda enda á þá kúgun kvenna sem enn á sér stað í mörgum löndum, og sýna fram á hvernig hægt sé að auka lýðræði og frið í heiminum með því að að nýta sér hæfileika og getu kvenna.
Hægt er að senda Sirleaf, Gbowee og Karman kveðjur hér.
Áður en Sirleaf, Gbowee og Karman hlutu verðlaunin höfðu aðeins 12 konur hlotið friðarverðlaun Nóbels, þar á meðal Móðir Teresa árið 1979 og Aung San Suu Kyi árið 1991. Hér er hægt að lesa ýtarlega grein um þær konur sem hafa hlotið friðarverðlaun Nóbels áður fyrr.
Afskaplega fáar konur hafa hlotið nóbelsverðlaun síðan þau voru sett á laggirnar árið 1901. Flestar hafa þær hlotið friðarverðlaun Nóbels og bókmenntaverðlaun Nóbels. Ein kona hefur hlotið nóbelsverðlaun í tveimur greinum, en Marie Curie hlaut verðlaunin fyrir eðlisfræði árið 1903 og fyrir efnafræði árið 1911. Dóttir hennar, Irène Joliot-Curie, hlaut reyndar einnig nóbelsverðlaun fyrir efnafræði árið 1935. Hér er hægt að finna lista yfir allar þær konur sem hafa hlotið nóbelsverðlaunin.