Fríða Rós Valdimarsdóttir
formaður Kvenréttindafélags Íslands


Á aðalfundi Kvenréttindafélags Íslands þ. 28. apríl 2015 var samþykkt ályktun þar sem skorað er á stjórnvöld að breyta löggjöf um fóstureyðingar. Á fundinum áttu sér stað frjó skoðanaskipti um málið, en ályktunin var samþykkt með einu mótatkvæði og hjásetu tveggja.

Ein spurninganna sem kom upp í umræðunni var af hverju Kvenréttindafélagið vildi leggja áherslu á þetta mál einmitt núna. Þeirri spurningu vil ég reyna að svara í þessari grein.

Hvernig eru núgildandi lög?

Fjörutíu ár eru frá því núgildandi löggjöf um fóstureyðingar var samþykkt, og er þessi löggjöf barn síns tíma.

Svava Jakobsdóttir var ein þeirra sem talaði fyrir núgildandi lögum um fóstureyðingar á Alþingi. Hér sést hún á ræðupalli á Kvennafrídag 1975. Myndin er héðan.

Svava Jakobsdóttir var ein þeirra sem talaði fyrir núgildandi lögum um fóstureyðingar á Alþingi. Hér sést hún á ræðupalli á Kvennafrídag 1975. Myndin er héðan.

Lögin kveða á um að fóstureyðing sé heimil annars vegar af læknisfræðilegum ástæðum, svo sem ef ætla má að heilsu konu sé hætta búin af áframhaldandi meðgöngu eða þegar ætla má að hætta sé á að barn „eigi á hættu að fæðast vanskapað eða haldið alvarlegum sjúkdómi vegna erfða eða sköddunar í fósturlífi“ eins og stendur orðrétt í lögunum. Hins vegar eru fóstureyðingar leyfðar af félagslegum ástæðum, sem geta til dæmis verið þroskaleysi móður, slæmar félagslegar aðstæður hennar eða að stutt sé liðið síðan hún gekk síðast með barn.

Áður en framkvæma má fóstureyðingu verður að liggja fyrir skriflega rökstudd greinargerð tveggja lækna, eða læknis og félagsráðgjafa sé um félagslegar ástæður að ræða. Kona sem hyggst gangast undir fóstureyðingu þarf þannig að færa rök fyrir ákvörðun sinni gagnvart heilbrigðisstarfsfólki. Henni er einnig skylt að gefa upp ýmsar persónulegar upplýsingar, bæði með því að fylla út eyðublað og svara spurningum félagsráðgjafa.

Því má segja að sama hve kona sé staðföst og fullviss um að hún vilji fara í aðgerðina, þá er lokaákvörðunin ekki hennar heldur undir heilbrigðisstarfsfólki komin.

Margar konur upplifa að fóstureyðingaferlið sé niðurlægjandi. Konum er skylt að þiggja ráðgjöf og fræðslu heilbrigðisstarfsfólks í ferlinu, og frásagnir kvenna sem hafa þurft að sitja undir þessari fræðslu benda til að hún sé auðmýkjandi og ekki hlutlaus. Konur upplifa skömm og sektarkennd og upplifa jafnvel að þær séu að gera eitthvað rangt, þó svo að þær séu að fylgja sannfæringu sinni. Upplifun af fóstureyðingaferlinu er því mörgum konum erfið og sársaukafull.

Þá hvílir grafarþögn í samfélaginu um fóstureyðingar, svo konur sem gangast undir þær segja almennt ekki frá reynslu sinni.

Hvað felst í hugtakinu „frjálsar fóstureyðingar“?

Þegar talað er um frjálsar fóstureyðingar, þá er ekki átt við að fóstureyðingar skuli gerðar frjálsar hvenær sem er á meðgöngunni, heldur aðeins að ákvörðun um fóstureyðingar skuli vera í höndum kvenna innan þess tímaramma sem lög segja til um framkvæmd fóstureyðinga.

Í núgildandi lögum segir að fóstureyðing skuli framkvæmd eins fljótt og auðið er og helst fyrir lok 12. viku meðgöngutímans. Fóstureyðing skal aldrei framkvæmd eftir 16. viku meðgöngutímans „nema fyrir hendi séu ótvíræðar læknisfræðilegar ástæður og lífi og heilsu konunnar stefnt í því meiri hættu með lengri meðgöngu og/eða fæðingu“.

(Reyndar má einnig framkvæma fóstureyðingar eftir 16. viku meðgöngutímans, „séu miklar líkur á vansköpun, erfðagöllum eða sköddun fósturs“, ákvæði sem eru mjög umdeild í samfélaginu og þarfnast mun meiri umræðu.)

Með því að tala um frjálsar fóstureyðingar er þannig átt við að kona eigi sjálf lokaorð um það hvort hún fari í fóstureyðingu á fyrstu tólf vikum meðgöngu.

Baráttan fyrir núgildandi lögum

Tímaritið Forvitin rauð var einn helsti vettvangur baráttunnar fyrir frjálsum fóstureyðingum. Myndin er sótt hingað.

Tímaritið Forvitin rauð var einn helsti vettvangur baráttunnar fyrir frjálsum fóstureyðingum. Myndin er héðan.

Árið 1972 fór af stað hörð barátta fyrir lögleiðingu fóstureyðinga á Íslandi. Það voru konur í Rauðsokkahreyfingunni sem stóðu í farabroddi þeirrar baráttu. Þörf kvenna á þessum tíma til að eiga rétt á fóstureyðingu sem ekki spillti heilsu þeirra var gríðarleg og Rauðsokkur komu á sérstöku teymi sem aðstoðaði konur að komast í aðgerð. Leyndin var svo mikil að konur notuðu til að mynda símaklefa til að hringja eftir aðstoð, svo að öruggt væri að ekki kæmist upp um hverjar þær væru.

Rauðsokkur hafa margar sagt frá því að þær hafi orðið fyrir verulegu aðkasti. Þær voru kallaðar barnamorðingjar og hreytt var í þær alvarlegum ónotum á almannafæri. Rauðsokkur hafa einnig sumar sagt frá því að þessi barátta hafi gengið þeim nærri, jafnvel nefnt að þær hafi verið gjörsamlega bugaðar við að koma lögum um fóstureyðingu í gegn.

En þeim tókst það. Frá 1975 hafa konur ekki þurft að flýja land til að komast í fóstureyðingu heldur geta þær farið á nokkur af sjúkrahúsum landsins.

Hvað ef konur flykkjast í aðgerð og nota þær sem getnaðarvarnir?

Það eru margar mýtur um frjálsar fóstureyðingar. Hvað ef konur flykkjast í fóstureyðingar ef þær eru frjálsar? Hvað ef konur fara að nota fóstureyðingar sem getnaðarvörn? Hvað ef þær sjá eftir fóstureyðingunni? Hvað með foreldra sem hafa misst fóstur, gerum við ekki lítið úr þeim? Hvað með rétt fóstursins? Hvað með rétt föðurins?

Sannleikurinn er sá að reynsla frá öðrum löndum sýnir að fóstureyðingum fjölgar ekki við að leyfa konum að fara með lokaákvörðun. Fóstureyðing er neyðarúrræði og fáar konur — ef þá einhverjar — leika sér að því að fara í fóstureyðingu eða hugsa um hana sem getnaðarvörn. Fóstureyðingar, eins og önnur læknisfræðileg inngrip, eru að einhverju leyti áhættusamar og ólíklegt að margar konur fari í gegnum ferlið nema að vel ígrunduðu máli.

Önnur hugmynd sem er algeng í umræðunni um fóstureyðingar er að konur geti í framtíðinni séð eftir því að hafa farið í fóstureyðingar. Við teljum að það sé ekki meiri hætta á eftirsjá ef ákvörðun er þeirra en annars aðila, nema síður sé. Það er villandi að halda því fram að nauðsynlegt sé að vernda konur gegn eftirsjá, að vernda konur frá því að taka ákvarðanir um líkama sinn og hafa forræði yfir sjálfum sér.

Það er heldur ekki svo að með frjálsum fóstureyðingum sé gert lítið úr þeim foreldrum sem missa fóstur og fara í gegnum sorgarferli. Fósturlát og fóstureyðing eru einfaldlega ekki sami hluturinn.

Varðandi rétt fósturs og föður, þá er hvorki hægt að neyða manneskju til að ala barn né láta eyða fóstri gegn vilja hennar. Ef vilji föður er annar en vilji móður verður vilji hans því að víkja.

Treystum konum!

Það getur tekið skamma stund að grafa undan aðgengi að frjálsum, öruggum fóstureyðingum. Á Spáni í fyrra stóð einmitt til að gera það. Myndin er héðan.

Barátta Rauðsokka á 8. áratugnum fyrir fóstureyðingum var ómetanleg og lögin voru byltingarkennd á sínum tíma. En voru lögin eins og baráttukonurnar vildu að þau yrðu? Alls ekki, þær stefndu að frjálsum fóstureyðingum. Eins og oft vill gerast í réttindabaráttu, þá nást fullnaðarréttindi ekki í fyrstu atrennu. Raunar hafa nokkrum sinnum verið lögð fram á Alþingi frumvörp þess efnis að þrengja lögin. Sem betur fer hafa slíkar lagabreytingar ekki náð í gegn.

Nú, 40 árum eftir að sett voru lög um fóstureyðingar, er svo komið að við sættum okkur ekki við að konur hafi ekki fullan sjálfsákvörðunarrétt um sinn eigin líkama. Það er ótvíræð tímaskekkja að lokaákvörðun um líkama og framtíð konu sé í höndum annarra en hennar sjálfrar. Ferlið verður einfaldlega að gera aðgengilegra fyrir konuna en nú er, og kona á ekki að þurfa að gefa flóknari ástæðu fyrir fóstureyðingu en að hún vilji ekki ganga með og ala barn.

Það verður að myndast í samfélaginu rými fyrir konur sem hafa farið í fóstureyðingu að segja sögur sínar ef þær svo kjósa. Það er engin skömm að hafa farið í fóstureyðingu. Það sem er okkur öllum til skammar er að konur sem hafa farið í fóstureyðingu finnst þær ekki mega ræða eða geta rætt um reynslu sína.

Konum verður að treysta til fulls fyrir sínum eigin líkama. Þess vegna krefst Kvenréttindafélag Íslands þess að íslensk stjórnvöld endurskoði löggjöf um fóstureyðingar, og viðurkenni kynfrelsi kvenna og yfirráð kvenna yfir eigin líkama.

Þessi grein er einnig birt á knuz.is.

Aðrar fréttir