Í ágúst 2009 fékk KRFÍ sent frumvarp til laga um breytingar á kosningarlögum. Breytingarnar varða persónukjör.

Umsögn Kvenréttindafélags Íslands um breytingu á lögum um kosningar til sveitastjórna, nr. 5/1998, með síðari breytingum. 

Kvenréttindafélag Íslands (KRFÍ) fagnar því að fram sé komið frumvarp er stuðlar að almennum lýðræðisumbótum. Í breytingartillögum frumvarpsins felst aukið vald til handa kjósendum sem velja eiga frambjóðendur til setu í sveitarsjórnum og ber að fagna því.  Stjórn KRFÍ lýsir hinsvegar áhyggjum sínum af því að engar sérstakar reglur né lögin sjálf virðast eiga að tryggja jafnrétti kynjanna á framboðslistunum. Í því ljósi krefst stjórn KRFÍ að kynjajafnrétti verði tryggt á framboðslistunum með því að setja kynjakvóta fyrir hvern lista eða með öðrum hætti að tryggja að hlutur kvenna, sem oftar en ekki hallar á, sé tryggður með sérstökum aðgerðum, nema um sérstök kvenna- eða karlaframboð sé að ræða. Með jöfnu hlutfalli kynja er hægt að miða við það sama og gildir við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga, þ.e. að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% af öðru hvoru kyni.