Í Morgunblaðinu 17. desember 2009 birtist eftirfarandi grein eftir Halldóru Traustadóttur framkvæmdastjóra KRFÍ um mikilvægi frjálsra félagasamtaka.

Grein í pdf skrá.


Á ráðstefnu á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar, sem undirrituð sótti í Kaupmannahöfn f.h. Kvenréttindafélags Íslands í lok nóvember, var rætt um það hvernig almenningur og ráðamenn Norðurlandanna geta átt sem greiðust og best samskipti. Opnunarávarp flutti Halldór Ásgrímsson framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar og minnti hann gesti ráðstefnunnar, sem allir komu frá Norðurlöndunum, á einkenni lýðræðis á Norðurlöndunum, þ.e. virkt félagafrelsi og nálægð íbúa landanna við ráðamenn. Sú nálægð sem almenningur hefur við yfirvöld er oftar en ekki fengin með þátttöku í hagsmuna- og félagasamtökum hverskonar sem hver um sig vinna að málefnum sem skipta félagana miklu máli og þeir hafa aflað sér mikillar þekkingar á. Ráðamenn eru á hinn bóginn nokkuð háðir þeirri þekkingu sem félagasamtökin hafa viðað að sér og því er samstarf milli þessara aðila mikilvægt. Ýmis samtök og stofnanir, þ.m.t. Kvenréttindafélag Íslands, fá til að mynda send frumvörp er snerta þau málefni sem félögin vinna að og gefst þeim kostur á að skila inn umsögnum um frumvörpin auk þess sem fulltrúar félaganna eru kallaðir fyrir nefndir Alþingis þar sem sjónarmið þeirra og sérfræðiþekking er tíunduð frekar. Hinn svokallaði „þriðji geiri“ eða „þriðja valdið“ er því mikilvægur hlekkur í lýðræðishefð Norðurlandanna.

Síðan efnahagshrunið varð á Íslandi fyrir um ári síðan hafa ráðamenn seint þreyst á því að minna þjóðina á þann mikla mannauð sem er að finna hér á landi, þ.e. heilbrigða og menntaða þjóð sem býr yfir mikilli þekkingu á fjölmörgum sviðum. En mannauðurinn einn og sér er einskis nýtur ef ekki eru skilyrði fyrir fólk til að koma auði sínum í farveg, eins og t.d. í gegnum starf í félagasamtökum.

Á tímum sem þessum er vert að muna að fólk sækir meira en annars inn í félagasamtök og félagasamtökin þjóna mikilvægum tilgangi í efnahagslægðum. Í því sambandi má nefna hjálparsamtök á borð við Rauða kross Íslands og Mæðrastyrksnefnd.

Nú þegar fjárlagagerð stendur yfir bíða mörg félög milli vonar og ótta um að fjárhagslegur stuðningur við þeirra félag verði skorinn niður. Með þessum greinarstúfi vill undirrituð minna ráðamenn á það að í lýðræðisríkjum Norðurlandanna er rík hefð fyrir því að hafa frjáls félagasamtök með í samráði þegar kemur að því að taka ákvarðanir um framtíð og framkvæmd mála er snerta borgarana. Kvennasamtök hafa t.d. í gegnum tíðina lagt grunninn að því að konur fengu kosningarrétt, kjörgengi og þar fram eftir götunum sem eflaust hefði ekki verið tekið á dagskrá stjórnmálamanna þeirra tíma. Enn í dag eru það í flestum tilvikum konur í áhrifastöðum, t.d. á þingi, sem koma málefnum er varða konur og börn sérstaklega á dagskrá.

Norræna ráðherranefndin hyggst í framtíðinni styrkja samstarf sitt við frjáls félagasamtök og leitar enn meir en nú er gert eftir sérfræðiþekkingu þeirra. Það er óskandi að Alþingi Íslendinga taki sömu afstöðu nú þegar fjárlagafrumvarpið liggur fyrir þinginu. Stöndum sterkan vörð um frjáls félagasamtök á Íslandi.

Aðrar fréttir