Guðrún Gísladóttir, heiðursfélagi í Kvenréttindafélagi Íslands, er látin

Kveðja frá Kvenréttindafélagi Íslands til minningar um Guðrúnu Gísladóttur (1920-2013)

Látin er í Reykjavík Guðrún Gísladóttir, bókasafnsfræðingur og heiðursfélagi í Kvenréttindafélagi Íslands. Guðrún gekk í Kvenréttindafélagið árið 1944 og var meðal máttarstólpa félagsins um áratuga skeið. Hún gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir hönd félagsins og sat í stjórn þess um árabil, þar af sem varaformaður 1982 til 1984. Árið 1987 var Guðrún kjörin heiðursfélagi í Kvenréttindafélaginu.

Guðrún starfaði alla tíð af einurð og réttsýni. Meðal þeirra málefna sem Guðrún bar sérstaklega fyrir brjósti í jafnréttisbaráttunni má nefna kröfuna um sömu laun fyrir sömu vinnu og baráttuna fyrir því að hjón teldu fram til skatts hvort í sínu lagi. Árið 1975 sat Guðrún í nefnd til að undirbúa Kvennafrídaginn, en 24. október það ár lögðu íslenskar konur niður vinnu og söfnuðust saman á útifundum um land allt til að krefjast jafnréttis. Undirbúningsnefndin vann störf sín hratt og örugglega, meirihluti kvenna lagði niður störf og tókst með aðgerð sinni að lama íslenskt atvinnulíf. Um 25.000 konur söfnuðust saman á Lækjartorgi og var það þá með stærstu útifundum sem haldnir höfðu verið hér á landi. Framtakið vakti ekki bara mikla athygli hér heima heldur vakti það einnig sérstaka athygli erlendis.

Guðrún var meðal þeirra kvenna sem stofnuðu Friðarhreyfingu íslenskra kvenna árið 1983. Friðarhreyfingin stóð fyrir undirskriftasöfnun árið 1985 undir kjörorðinu „Friðarávarp íslenskra kvenna“ og sat Guðrún í undirbúningsnefnd söfnunarinnar. 37 þúsund íslenskar konur skrifuðu undir ávarpið sem afhent var á Kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Nairóbí í Kenía í júlí sama ár. Í Friðarávarpinu fluttu íslenskar konur kveðjur til umheimsins og lauk ávarpinu svo: „Við viljum frið sem grundvallast á réttlæti, frelsi og umhyggju í mannlegum samskiptum.“

Guðrún hlúði að menningu og sögu íslenskra kvenna. Hún var meðal þeirra sem beittu sér fyrir stofnun Kvennasögusafns Íslands og sat hún í áhugahópi um varðveislu og framgang Kvennasögusafns Íslands fyrir hönd Kvenréttindafélagsins, frá stofnun hópsins árið 1987 þar til safnið varð að einingu innan Þjóðarbókhlöðunnar árið 1996, en hafði sú sameining verið markmið hópsins frá upphafi. Þá sat Guðrún í ritnefnd bókarinnar Veröld sem ég vil, sögu Kvenréttindafélagsins sem skráð var af Sigríði Th. Erlendsdóttur sagnfræðingi og kom út árið 1993. Guðrún tengdi eldri og yngri tíma í Kvenréttindafélaginu, en sjálf var hún virkur þátttakandi í sögu félagsins allt frá lýðveldisstofnun.

Kvenréttindafélag Íslands þakkar Guðrúnu framlag hennar til félagsins og jafnréttisbaráttu kynjanna og sendir fjölskyldu hennar innilegar samúðarkveðjur.

Steinunn Stefánsdóttir, formaður Kvenréttindafélags Íslands.