Miðvikudaginn 19. júní fögnum við því að 104 ár eru liðin frá því að konur fengu kosningarétt. Ýmsir viðburðir eru skipulagðir í Reykjavík í tilefni dagsins.
Blómsveigur á leiði Bríetar
Kl. 11:00 leggur Reykjavíkurborg blómsveig að leiði Bríetar Bjarnhéðinsdóttur í Suðurkirkjugarði um morguninn. Forseti borgarstjórnar heldur stutta tölu og leggur blómsveig á leiðið í minningu Bríetar og réttindabaráttu kvenna. Salóme Katrín Magnúsdóttir flytur tvö lög.
Úthlutun úr Jafnréttissjóði Íslands
Kl. 11:30 fara fram styrkveitingar úr Jafnréttissjóði Íslands fyrir árið 2019, í Björtuloftum í Hörpu. Forsætisráðherra ávarpar fundinn. Dr. Annadís Gréta Rúdólfsdóttir og Þórður Kristinsson kynna verkefnið „Börn á tímum kynlífsvæðingar og stafrænnar tækni“; Helgi Árnason kynnir verkefnið „Sterkar skákkonur“; dr. Sigríður Matthíasdóttir kynnir verkefnið „Rannsókn á ævi Pálínu og Pálínu. Ævisaga tveggja kvenna“; og Berglind Eyjólfsdóttir kynnir verkefnið „Þekktu rauðu ljósin. Vitundarvakning um ofbeldi í nánum samböndum, samstarfsverkefni Bjarkarhlíðar og Kvennaathvarfsins.“
Hátíðarfundur
Kl. 17:00 bjóða félög kvenna á Hallveigarstöðum ykkur velkomin á hátíðarfund í samkomusal Hallveigarstaða að Túngötu 14. Gestur fundarins í ár er Steinunn Valdís Óskarsdóttir, nýskipaður skrifstofustjóri jafnréttismála hjá forsætisráðuneytinu, fyrrverandi borgarstjóri og alþingismaður. Steinunn spjallar við gesti um jafnréttismál á Íslandi. Léttar kaffiveitingar eru í boði Hallveigarstaða.
Femínísk gleðistund
Kl. 18:00 bjóða Kvenréttindafélag Íslands og Lady Brewery, eina íslenska bruggverksmiðjan í eigu kvenna, ykkur í „Happy Hour“ á Skúla Craft Bar, Aðalstræti 9. Skúli Craft Bar býður ískalda First Lady á happy hour verði fram eftir kvöldi! Hlökkum til að sjá þig! Skálum saman fyrir áföngunum sem við höfum náð og skipuleggjum sigra framtíðarinnar.
Kvennamessa
Kl. 20:00 heldur Kvennakirkjan árlega messu kvenna að Kjarvalsstöðum.
***
19. júní er kvenréttindadagur Íslendinga. Fögnum saman þeim árangri sem við höfum náð í jafnréttismálum og minnumst þeirra baráttukvenna sem ruddu brautina. Saman sköpum við samfélag sem byggist á jafnrétti og manngæsku.