19. nóvember 2019
Hallveigarstöðum, Reykjavík

Leitað hefur verið til Kvenréttindafélags Íslands að senda inn hugmyndir og ábendingar vegna væntanlegrar tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2020-2024. 

Kvenréttindafélag Íslands hvetur til þess að verkefni sem lögð verða fram í áætluninni séu kynjagreind og að kynjajafnrétti sé haft að leiðarljósi í öllum verkefnum áætlunarinnar 

  • Kvenréttindafélag Íslands hvetur til þess að í aðgerðaráætluninni verði styrkt verkefni sem vinna að valdeflingu stúlkna og kvenna óháð fötlun, kynhneigð o.fl. og stuðla að þátttöku kvenna af erlendum uppruna í íslenskum grasrótasamtökum og hópum. Með því að styrkja þátttöku kvenna af erlendum uppruna í jafnréttis- og mannréttindabaráttu leggjum við grundvöll að íslensku samfélagi til frambúðar.
  • Þá hvetur Kvenréttindafélagið sérstaklega til þess að í framkvæmdaáætlunni verði verkefni sem eflir þátttöku stúlkna og kvenna af erlendum uppruna óháð fötlun, kynhneigð o.fl. í stjórnmálum og starfi frjálsra félagasamtaka, þ.á.m. stéttarfélögum og hagsmunasamtökum sem starfa að öðrum málum en málefnum innflytjenda. 
  • Í þessu samhengi bendir Kvenréttindafélagið á Kynjaþing frjálsra félagasamtaka þar sem samtök sem starfa að jafnréttismálum standa fyrir viðburðum og eiga samráð (http://kynjathing.is). Þetta kynjaþing gæti nýst sem fyrirmynd að innflytjendaþingi, vettvangi þar sem konur og fólk af erlendum uppruna á Íslandi á frumkvæði að og tekur virkan þátt í að ræða málefni sem það varðar. 
  • Kvenréttindafélag Íslands hvetur til þess í aðgerðaráætluninni verður verkefni sem kveður á um að gefið sé út aðgengilegt fræðsluefni um réttindi kvenna á Íslandi og jafnrétti kynjanna, þ.á.m. jafnrétti hinsegin fólks og jafnrétti í víðum skilningi, á tungumálum helstu innflytjendahópa á Íslandi.
  • Kvenréttindafélag Íslands minnir á tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2020 til 2023 (þingskjal 102 – 102. mál, 150. löggjafarþing), og hvetur til þess að litið sé til þeirrar áætlunnar í framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda, svo að verkefnin sem sett eru fram í þessum tveim áætlunum styrki hvert annað. Réttindi kvenna og réttindi innflytjenda eru samtvinnuð, jafnrétti er ekkert ef ekki er litið til allra mismununarþátta.
  • Kvenréttindafélag Íslands hvetur til þess að í áætluninni verði verkefni til að auka menningarfærni fólks sem fætt er á Íslandi, til að auka skilning okkar allra á þeim mismunandi þjóðum sem nú byggja samfélagið okkar. Þessi jafnréttisfræðsla ætti bæði að beinast að fullorðnum sem og að börnum í skólum landsins. Kvenréttindafélag Íslands hvetur ennfremur til þess að kynja- og jafnréttisfræðsla verði gerð að skyldufagi á öllum skólastigum.
  • Kvenréttindafélag Íslands hvetur enn fremur til þess að í áætlunina verði sett verkefni sem stuðli að því að auka fjölbreytni í fjölmiðlum landsins, svo að raddir fólks og kvenna af erlendum uppruna fái að heyrast í íslenskum fjölmiðlum. Lítum við þá sérstaklega til ríkisfjölmiðlanna, RÚV, þannig að á öldum ljósvakans fái að heyrast íslenska með fjölbreyttum hreim og sjást andlit með fjölbreyttan litarhátt.
  • Kvenréttindafélag Íslands ítrekar mikilvægi þess að stjórnvöld vinni að öflugu forvarnastarfi gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi sem konur, þ.á.m. konur af erlendum uppruna, verða fyrir og veiti fullnægjandi aðstoð og þjónustu í kjölfar ofbeldis.
  • Kvenréttindafélag Íslands leggur til að í aðgerðaráætluninni verði tryggt að í fræðslu sem einstaklingum með stöðu flóttafólks er boðið sé sérstaklega fjallað um kvenréttindi og jafnrétti kynjanna, þ.á.m. jafnrétti hinsegin fólks og jafnrétti í víðari skilningi (sjá lið E2, í núgildandi framkvæmdaráætlun). Enn fremur hvetur Kvenréttindafélag Íslands til að öllum hælisleitendum á Íslandi verði boðið upp sömu fræðslu þar sem m.a. er fjallað um kvenréttindi og jafnrétti kynjanna, þ.á.m. jafnrétti hinsegin fólks og jafnrétti í víðari skilningi.
  • Kvenréttindafélag Íslands hvetur til þess að fötluðu og hinsegin flóttafólki verði tafarlaust veittur stuðningur, þjónusta, hjálpartæki og viðeigandi aðlögun svo fljótt sem auðið er, og að öll þjónusta sé í samræmi við kynvitund og kyntjáningu þeirra. 

Aðrar fréttir