Dagana 17. – 18. október komu írskar þingkonur til Íslands á vegum Work Equal, samtökum á Írlandi sem aðstoða konur að komast aftur inn á vinnumarkaðinn. Heimsóknin var skipulögð í samvinnu við Kvenréttindafélagið og fylgdi Rut Einarsdóttir, framkvæmdastýra Kvenréttindafélagsins, þeim á fundi.

Markmið ferðarinnar var að fræðast um árangur Íslands í kjarajafnrétti, fæðingarorlofslöggjöfina og dagvistun barna.

Til þess að fræðast um hlutverk verkalýðsfélaganna hittu þær Brynhildi Heiðar- og Ómarsdóttur, forseta Fræðagarðs og Unni Berglindi Friðriksdóttur, formann Ljósmæðrafélags Íslands.

 

Þar á eftir hittu þær Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur, forseta borgarstjórnar Reykjavíkur sem sagði þeim frá dagvistunarúrræðum á Íslandi, hlutverk jafns fæðingarorlofs þegar kemur að jafnrétti og önnur jafnréttismál á vegum borgarinnar.

 

Í lok dags komu þær á skrifstofu Kvenréttindafélags Íslands þar sem Rut Einarsdóttir, framkvæmdastýra félagsins, Helga Dögg Björgvinsdóttir, varaformaður og Tanja Teresaleifsdóttir, stjórnarkona tóku á móti þeim og gáfu þeim sögu kvennahreyfingarinnar á Íslandi og stöðuna á Íslandi í dag.

 

Þriðjudaginn 18. október hófu þær á heimsókn til Alþingis þar sem Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata og Jón Steindór Valdimarsson, varaþingmaður Viðreisnar tóku á móti þeim í hádegisverð. Þau ræddu löggjöfina á Íslandi og mikilvægi þess að festa jafnrétti í lög og að fylgja þeim eftir með innleiðingu.

 

Seinni part dags tók Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Íslands á móti þeim og ræddi við þær árangur Íslands í jafnréttismálum, hvert við stefnum og hvernig Ísland og Írland geta unnið saman í þeim málefnum.

 

Að lokum fékk hópurinn fræðslu frá Rán Ingvarsdóttur á skrifstofu jafnréttis- og mannréttindamála um jafnlaunavottun og önnur stefnumál jafnréttismála.

 

Við þökkum þeim kærlega fyrir heimsóknina og hlökkum til frekara samstarfs til kynjajafnréttis á Íslandi og Írlandi.

Aðrar fréttir