Hinn árlegi jólafundur Kvenréttindafélags Íslands og Kvennasögusafns Íslands verður haldinn í Þjóðarbókhlöðunni, fimmtudaginn 4. desember kl. 17 – 18:30.

Steinar Bragi mætir og les upp úr skáldsögu sinni Kötu, Kristín Steinsdóttir les upp úr skáldsögunni Vonarlandið og Björk Þorgrímsdóttir og Valgerður Þóroddsdóttir lesa upp úr Konur á ystu nöf og fleiri meðgönguljóðum.

Tökum forskot á jólin með góðum bókum, kaffi, konfekti og kvennasamstöðu!

 ***

Steinar Bragi er fæddur í Reykjavík árið 1975. Hann er stúdent frá Menntaskólanum við Sund og með B.A. próf í almennri bókmenntafræði og heimspeki frá Háskóla Íslands. Hann hefur gefið út ljóðabækur og skáldsögur. Fyrsta skáldsaga hans, Turninn, kom út árið 2000 og fleiri hafa síðan fylgt í kjölfarið. Árið 2010 var Steinar tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir skáldsögu sína Konur.

Kristín Steinsdóttir er fædd á Seyðisfirði árið 1946. Kristín hefur skrifað barnabækur, skáldsögur og leikrit og hefur verið virk í baráttunni fyrir hagsmunum íslenskra rithöfunda. Kristín hefur hlotið margskonar verðlaun og viðurkenningar fyrir skrif sín. Fyrsta bók hennar, Franskbrauð með sultu sem út kom 1987 hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin. Síðasta skáldsaga hennar, Ljósa, hlaut bæði Fjöruverðlaunin – bókmenntaverðlaun kvenna og Menningarverðlaun DV. Árið 2013 var Kristínu veit Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu, fyrir framlag til íslenskra bókmennta.

Björk Þorgrímsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1984. Fyrsta bók hennar, ástarsagan „Bananasól“, kom út hjá grasrótarforlaginu Tunglinu árið 2013, en Björk hefur einnig birt ljóð í tímaritinu Stínu, kvæðasöfnunum Ljóð í leiðinni: Skáld um Reykjavík, Konur á ystu nöf og sýnisbókinni Hvísl. Fyrsta ljóðabók Bjarkar, Neindarkennd, kom út hjá Meðgönguljóðum í febrúar 2014.

Valgerður Þóroddsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1989. Hún er ein af stofnendum og forsvarsfólki Meðgönguljóða, þar sem hennar fyrsta bók kom út 2012, en hún hefur síðan birt ljóð í tímaritinu Stínu, kvæðasöfnunum Ljóð í leiðinni: Skáld um Reykjavík og Konur á ystu nöf, sem og á ensku í tímaritunum SAND Journal og Fireflies í Berlín. Árið 2014 var Valgerður tilnefnd fyrir hönd Íslands til New Voices verðlaunanna á vegum PEN, alþjóðasamtaka rithöfunda.

Aðrar fréttir