Stærstu regnhlífarsamtök kvennahreyfingarinnar í Evrópu ræða um ungt fólk og jafnréttisbaráttuna
Kolfinna Tómasdóttir hefur verið valin fulltrúi Íslands á fundi European Women’s Lobby, Hagsmunasamtaka evrópskra kvenna, um ungt fólk í jafnréttisbaráttunni.
Kolfinna hefur lokið BA gráðu í lögfræði og stundar nú meistaranám í lögfræði og diplómunám í Mið-Austurlandafræði við Háskóla Íslands samhliða því að starfa sem fyrsti alþjóðafulltrúi réttindaskrifstofu Stúdentaráðs HÍ. Kolfinna hefur víðtæka reynslu í félagsstörfum. Hún hefur gegnt embætti alþjóðaritara Orators, félags laganema við Háskóla Íslands, og setið sem forseti Norræna alþjóðaritararáðsins sem sér um samstarf 11 laganemafélaga á Norðurlöndunum. Kolfinna endurvakti Íslandsdeild ELSA (e. European Law Students’ Association), sat sem forseti félagsins fyrsta starfsárið og er nú ritstjóri tímarits Íslandsdeildar ELSA sem tileinkað er alþjóðalögfræði.
Kolfinna hefur beitt sér af miklum krafti fyrir jafnréttismálum í gegnum störf sín fyrir Ungar athafnakonur, ungmennaráð UN Women á Íslandi og Druslugönguna. Kolfinna stýrði ráðstefnu Ungra athafnakvenna, Brotið glerþak til frambúðar, vorið 2019 og stóð fyrir ráðstefnu norrænna laganema Gender Equality – Iceland Closing the Gap árið 2017.
Kvenréttindafélag Íslands valdi Kolfinnu sem fulltrúa Íslands á fund Hagsmunasamtaka evrópskra kvenna, European Women’s Lobby (EWL), um ungt fólk og jafnréttisbaráttuna, sem haldinn er í Brussel helgina 8. til 11. nóvember. EWL eru stærstu regnhlífarsamtök kvennahreyfingarinnar í Evrópu. Kvennasamtök í 30 löndum eiga aðild að EWL, sem og 19 samtök sem starfa á evrópskum vettvangi. Kvenréttindafélagið gekk í EWL árið 2019 og er tengiliður íslensku femínistahreyfingarinnar við samtökin.
Tatjana Latinovic formaður Kvenréttindafélags Íslands: „Stjórn Kvenréttindafélags Íslands er mjög stolt að geta sent svo glæsilegan fulltrúa ungar kynslóðar jafnréttissinna á þennan mikilvæga fund í Brussel. Kolfinna var valin úr hópi margra mjög hæfra umsækjenda – við hlökkum til að fylgjast með henni setja sitt mark á fundinn sem verðugur fulltrúi ungra íslenskra femínista og koma til baka heim með nýjar hugmyndir í farteskinu.“
Kolfinna Tómasdóttir: „Það er mér sannur heiður að vera meðal þeirra 30 kvenna sem funda með European Women’s Lobby um þessi mikilvægu málefni. Ég er gríðarlega spennt að fá að vinna með öflugum konum með ólíka bakgrunna. Femínískt samstarf á alþjóðavettvangi er grundvöllurinn að meira kynjajafnrétti.“