31. desember 2011 var kynnt tímamótaríkisstjórn hér á landi. Í fyrsta skipti gegna fleiri konur en karlar ráðherraembættum.
Ísland er sjötta landið þar sem konur eru í meirihluta ríkisstjórnar. Finnland reið á vaðið árið 2007 en síðan þá hafa Noregur, Spánn, Cape Verde og Sviss einnig skipað ríkisstjórnir þar sem konur eru í meirihluta.
Í rannsókn sem gerð var í janúar 2010 á stjórnskipulagi 188 landa kom í ljós að konur gengdu aðeins 16,9 % af 4100 ráðherrastöðum. Mikill munur er á þátttöku kvenna í ríkisstjórnum milli heimssvæða. Konur gegndu 7,6% ráðherrastöðum í löndum Araba, 22,7% ráðherra í Evrópu allri voru konur og ef aðeins var litið til Norðurlanda, þá voru konur 49,7% ráðherra.
Auður Auðuns tók fyrst kvenna sæti á ráðherrastól hér á landi þegar hún var skipuð dóms- og kirkjumálaráðherra 1970 og gegndi hún því starfi í eitt ár. Á vef Alþingis er hægt að sjá yfirlit um alla þá sem gegnt hafa ráðherraembætti á Íslandi.
Ný ríkisstjórn frá og með 31. desember 2011 er:
- Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra
- Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
- Össur Skarphéðinsson,utanríkisráðherra
- Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, og samstarfsráðherra Norðurlanda
- Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra
- Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra
- Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra
- Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra
- Oddný G. Harðardóttir, fjármálaráðherra