8-mars-2014Þetta erindi var flutt á baráttufundi í Iðnó á alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars 2014. Höfundur er framkvæmdastýra Kvenréttindafélags Íslands, Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir.

 

Heil og sæl! Og til hamingju með alþjóðlegan baráttudag kvenna.

Næstu mínúturnar ætla ég að ræða um forystu. Og þar sem ég er mikill orðabelgur, ætla ég líka að að ræða um völd… og um konur!

***

Eins og þið vitið vonandi öll þá eru sveitarstjórnarkosningar í vændum. Færri ykkar vita væntanlega af verkefni sem hófst í lok síðasta árs þar sem formenn stjórnmálaflokka og kvennahreyfingarinnar hittust á tveimur fundum til að ræða hvernig hægt væri að auka þátttöku kvenna í stjórnmálum. Afrakstur þessara funda var svo blaðamannafundur, þar sem lesin var áskorun að velja konur í forystusæti í stjórnmálum og atvinnulífi; og hrikalega ljótt – ef þarft – lógó kynnt, skærappelsínugult með feitletruðum kjörorðunum Konur í forystusæti.

Ég mætti á þennan fund, gæddi mér á samlokum og sódavatni, og fylgdist með herlegheitunum, þar sem einu karlmennirnir voru blaðaljósmyndararnir. Og síðan fór um mig kjánahrollur þegar við konurnar stóðum saman í einni þvögu á miðju gólfi, lyftum upp blöðum með þessu appelsínugula lógói og brostum til karlanna, sem skyndilega voru allir komnir upp á stóla með myndavélar.

konur í forystusætiSum ykkar hafa eflaust séð myndir af þessari þvögu. Mörg kunnugleg andlit á þessum myndum, konur sem hafa starfað í fjölda ára og jafnvel áratuga á vettvangi stjórnmála.

En þetta var einsleitur hópur, allt konur, hvítar, af íslenskum ættum. Þetta voru konur sem hafa áhrif í krafti stöðu sinnar, menntunar og fjárhags, konur sem hafa raunveruleg völd í samfélaginu.

Við millistéttakellingarnar stóðum þarna sameinaðar fyrir framan karlkyns blaðaljósmyndarana og hvöttum konur sem voru alveg eins og við til að sækja um forystusæti í stjórnmálum.

***

Og þetta er svo sem afskaplega þörf áskorun!

Ég skal segja ykkur það að ég varð fyrst alvöru feministi árið 2009.

Ég sat ein út í New York og fylgdist með Alþingiskosningunum í beinni útsendingu á netinu. Ég húkti fyrir framan tölvuskjáinn, enn í losti og áfalli yfir hruninu blessaða, enn reið og bitur og hrædd. Og ég var ein þegar ég öskraði skyndilega upphátt þegar ég gerði mér grein fyrir að íslenskar konur hefðu loksins brotið hið alræmda glerþak á Alþingi Íslendinga.

Fyrsta konan tók sæti á Alþingi 1922, hún Ingibjörg Bjarnason. Hlutfall kvenna á Alþingi: 2,3 prósent. Næstu áratugina rokkaði hlutfall kvenna á þingi milli 0% og 5%. Fram að árinu 1983 sátu aldrei fleiri en 3 konur á þingi í einu, og stundum ekki ein einasta.

Þegar Kvennalistinn bauð sig fram þrefaldaðist fjöldi kvenna á Alþingi. Við vorum skyndilega orðnar 9, heil 15%. Og síðan fjölgaði okkur smám saman en náðum þó aldrei að fylla þriðjung sæta.

Það þurfti hrun til að fjölga konum á Alþingi íslenska lýðveldisins. Árið 2009 voru 27 konur kosnar inn á Alþingi, 42,9%.

Þetta fyrsta kvöld gerðu fréttaskýrendur reyndar ekkert mikið úr þessum áfanga, enda var staða kynjanna ekki það sem var efst á baugi þetta skelfingarár. En ég tók eftir þessum áfanga.

Og næstu árin átti samfélagið eftir að taka rækilega eftir því, hvað gerist þegar konur fá alvöru völd í hendurnar.

Kíkjum á lögin sem hafa verið sett á Alþingi síðustu árin, lög sem oft eru þverpólitísk, studd af konum úr öllum flokkum. Árið 2009 lögfestum við bann við kaup á vændi. Árið 2010 samþykktum við lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja. Sama ár samþykktum við bann á nektardansstöðum og árið eftir lög sem fjarlægja heimilisofbeldismenn af heimili.

***

Það var semsagt árið 2009 sem var árið þegar ég hætti að vera póstfeministi og varð aftur feministi; árið sem ég hætti að líta á kvennabaráttuna sem einungis samfélagsgreiningu og menningarrýni; árið sem ég uppgötvaði að vald skiptir máli til að búa til betri heim. Þetta var árið sem ég varð valdagráðug.

Og til þess að ná þessum völdum skiptir máli að við allar stígum fram og tökum forystu í okkar nærumhverfi. Já, við eigum að sækjast eftir því að komast efst á lista í stjórnmálahreyfingum, en við eigum líka að sækjast eftir að komast í forystu í félagasamtökum, í verkalýðshreyfingunni, á vinnustaðnum okkar, í saumaklúbbnum okkar, í lífinu.

***

Það hefur ekkert borið á þessu átaki stjórnmálakvennana síðustu mánuðina. Einstaka fyrirlestur hefur verið haldinn af hagsmunasamtökum, meðal annars mínu ástkæra Kvenréttindafélagi, en átakið hefur engan árangur borið, hvorki í fjölgun kvenna í forystusætum stjórnmálalista eða í vakningu á almennri umræðu í samfélaginu.

Kannski var það vegna þess að átak eins og þetta getur aðeins borið árangur ef allar raddir samfélagsins fá að heyrast. Átak stjórnmálahreyfingarinnar og kvennahreyfingarinnar slær falsnótu, konurnar sem standa þar á baki eru svo einsleitar, svo eins-litaðar, að raddir þeirra fléttast saman og verða að einni hjáróma rödd.

Vissulega þurfum við að hvetja konur til að taka forystusæti í stjórnmálum og ég er stolt af því að Kvenréttindafélagið tók þátt í þessu verkefni. En við megum ekki gleyma því að við konur komum úr öllum áttum og höfum misgreiðan aðgang að stjórnmálastarfi og stjórnvöldum. Því ætla ég að hvetja til þess í dag að við segjum kjörorð okkar vera: Konur til forystu… úr öllum áttum.

Allar konurnar sem standa hér á sviðinu í dag eru konur sem hafa tekið forystu, hver á sínu sviði, sumar í atvinnulífinu, sumar í félagslífinu, sumar í lífinu sjálfu. Þær koma úr öllum áttum, hver þeirra hefur sína eigin sögu að segja, og þeirra sögur er saga framtíðar Íslands, sögur sem eiga eftir að breyta heiminum.

***
Jóhanna Van Schalwyk fæddist í Suður Afríku en býr nú á Grundarfirði þar sem hún hefur byggt upp ferðaþjónustu í sveitarfélaginu. Og árið 2006 tók hún sér sæti í bæjarstjórn, ein af afskaplega fáum konum af erlendum uppruna sem komist hafa í valdastöðu í íslenskum stjórnmálum.

Ása Hauksdóttir hefur síðustu áratugina unnið að framgangi listar og að því að auka aðgengi ungs fólks að menningu. Hún stýrir m.a. Músíktilraunum, Unglist-listahátíð ungs fólks, og Götuleikhúsinu. Hún er verkalýðskona, varaformaður Starfsmannafélags Reykjavíkuborgar. En það mikilvægasta, sagði hún mér,  Ása er móðir, kona, meyja – dóttir, systir og vinkona

Þegar Danute Sakalauskiene kom frá Litháen fyrir þrettán árum talaði hún enga íslensku og afskaplega litla ensku. Hún skráði sig á námskeið og lærði íslensku. Og svo skráði sig í nám og útskrifaðist sem sjúkraliði. Hún sagði mér, þegar ég hringdi í hana upp úr þurru í gærkvöldi, að það skiptir það hana miklu máli að geta gefið til baka til samfélagsins sem gaf henni svo mikið.

Hanna Björg Vilhjálmsdóttir er kannski mesti byltingarseggur á Íslandi í dag árið 2007 byrjaði hún að kenna jafnréttisfræði í skólanum sínum, fyrst kvenna á Íslandi. Fimm árum síðar bjóða 17 framhaldsskólar af 33 á landinu upp á kynjafræði. Og menntaskólakrakkar eru auðvitað orðnir feministar. 9 feministafélög starfa í framhaldsskólum í dag, en ekkert fyrir tveimur árum.

Og að lokum er það Lea María Lemarquis, þessi 19 ára stúlka sem er varaformaður Menningar- og friðarsamtaka íslenskra kvenna. Lea er félagskona, en hún hefur mætt á 8. mars baráttufundina á hverju ári síðan hún fæddist… nema reyndar eitt árið þegar hún var erlendis.

Allar þessar konur sem taka til máls í dag skara framúr hver á sinn máta, þær hafa tekið af skarið og tekið sér forystuhlutverk, hvort sem það er í stjórnmálum, félagsstarfi, atvinnulífinu, eða lífinu sjálfu.

Það er mér mikill heiður að standa hér og ávarpa ykkur allar, ykkur öll, hér á alþjóðlegum baráttudegi kvenna.

***

Og ég ætla að nýta mér vald mitt yfir míkrófóninum, fyrst ég fékk tækifæri til að láta í mér heyra hér á þessum degi, og hvetja ykkur öll að mæta á galvösk á stærstu femínistaráðstefnu Norðurlanda síðustu tuttugu árin. Nordiskt Forum verður haldið í Svíþjóð í júní næstkomandi. Þúsundir femínista, aktívista, umhverfissinna, fræðimanna og byltingarseggja frá öllum Norðurlöndunum og alls staðar að úr heiminum ætla hittast í Malmö og ræða um áskorirnar í jafnréttisbaráttunni og hvað við þurfum að gera til að breyta heiminum.

Megið þið lengi lifa!

http://www.youtube.com/watch?v=mcrRQkMpJdY

Aðrar fréttir