Þann 19. júní bárust fréttir af því að Alþjóðasundsambandið (FINA) hefði samþykkt nýjar reglur sem banna trans konum að keppa í kvennaflokki á heimsmeistaramótum í sundgreinum. Sundsamband Íslands (SSÍ) greiddi atkvæði með reglunum þrátt fyrir að þær byggi á mismunun og útilokun á trans fólki, og sérstaklega trans konum. Í kjölfarið sendi Argafas, nýr hópur hinsegin fólks, frá sér yfirlýsingu sem fordæmdi þessa ákvörðun með stuðningi 19 kvenréttinda- og hinsegin samtaka.

Fyrir utan þau félög sem skrifuðu undir yfirlýsinguna hafa íslensk íþróttabandalög enn ekki sent frá sér stuðningsyfirlýsingar með kröfum okkar. Haldi þögn þeirra áfram er ekki hægt að skilja annað en svo að þau taki með því afstöðu með fordómum og mismunun byggða á fölskum vísindum og hræðsluáróðri. Með því að banna trans fólki að stunda keppnisíþróttir á afreksstigum er verið að ýta gríðarlega jaðarsettum hóp enn lengra út á jaðarinn og jafnvel aftur inn í skápinn.

Því blásum við til kröfufundar þann 6. júlí klukkan 18 fyrir utan skrifstofur ÍSÍ og SSÍ að Engjavegi 6 og biðjum öll þau sem er annt um jafnrétti og mannréttindamál að koma og standa með okkur. Við hvetjum öll sem geta til að mæta í íþróttafötum til að sýna samstöðu.

Kröfur okkar eru eftirfarandi:

  1. Að SSÍ dragi atkvæði sitt til baka. Sé slíkt ekki hægt vegna tæknilegra atriða krefjumst við þess að sambandið gefi út opinberlega yfirlýsingu þar sem það segist ekki lengur geta staðið með atkvæðagreiðslu sinni og biður trans fólk afsökunar.
  2. Að SSÍ lofi að tala fyrir inngildingu og mannréttindum í komandi umræðum og kosningum annarra nefnda (svo sem Ólympíunefndanna, Evrópusamtaka og á norrænum vettvangi), í stað þess að standa fyrir mismunun og útskúfun.
  3. Að Íþróttasamband Íslands fordæmi afstöðu SSÍ og taki opinberlega afstöðu með réttindum trans fólks, þar með talið trans kvenna sem keppa í íþróttum á afreksstigi.

Síðast en ekki síst viljum við hvetja öll önnur íþróttabandalög og – félög sem og íþróttafólk á öllum stigum ástundunar á Íslandi að tala opinskátt og opinberlega gegn þeirri stefnu að útiloka trans fólk frá þátttöku í íþróttum, hvort sem það á við um börn eða fullorðna, afreksfólk eða áhugafólk.

Trans fólk á heima í íþróttum án aðgreiningar og án mismununar!

Undirritað:
Argafas
Bangsafélagið
Intersex Ísland
Femínistafélag Háskóla Íslands
Hinsegin Vesturland
Hinsegin Austurland
Kvenréttindafélag Íslands
Kynís – kynfræðifélag Íslands
Q – félag hinsegin stúdenta
Tabú – Femínísk Fötlunarhreyfing
Trans Ísland
Rauða Regnhlífin
Röskva
Samtökin 78
Slagtog – Femínísk sjálfsvörn
Stelpur Rokka
Styrmir Íþróttafélag
WOMEN in Iceland
Öfgar

Aðrar fréttir