Kvennakirkjan hélt sína árlegu kvennamessu 19. júní 2018 á Kjarvalsstöðum. Að vanda tók Kvenréttindafélagið þátt í athöfninni og Fríða Rós Valdimarsdóttir formaður las upp ritningarorð.
Konur í fararbroddi kvennahreyfingarinnr skrifuðu Kvennabiblíuna rétt fyrir aldamótin 1900. Það var til að gá hvað Biblían sagði raunverulega um konur. Þess vegna skrifuðu þær nýjar skýringar á köflum um konur. Þær sögðu þessa um meyjarnar tíu sem er sagt frá í 25. kafla Matteusarguðspjalls:
Sagan um meyjarnar tíu er um tíu ungar konur sem voru allar boðnar í brúðkaup. Veislan átti að byrja einhvern tíma um kvöldið og allar dauðþreyttar stúlkurnar steinsofnuðu meðan þær biðu. Þær vöknuðu við útkallið og þá var komið miðnætti. Myrkrið var skollið á og fimm þeirra sáu sér til skelfingar að það var slokknað á lömpunum þeirra og þær höfðu ekki tekið með sér neina olíu. Þær stóðu bjargarlausar í myrkrinu og eina ráðið var að biðja hinar fimm um hjálp en þær höfðu tekið olíu með. Þá verðum við allar olíulausar, sögðu þær. Þið verðið bara að drífa ykkur í búðina. Og stúlkurnar fimm fóru til að kaupa. En þegar þær komu að veislusalnum var búið að loka. Þær misstu af sameiginlegri göngunni í veisluna og svo af veislunni sjálfri. Það var trúlega af því að þær höfðu verið að snúast í að setja olíu á lampana hjá mönnunum í fjölskyldum sínum, feðrum, bræðrum og frændum í staðinn fyrir að sjá um sína eigin lampa.
Þær stóðu fyrst eins og aðskotadýr í göngunni, útundan með dimma og tóma lampana. Það komu engir skilningsríkir menn til að hlaupa eftir olíu fyrir þær og þegar þær standa við lokaðar dyrnar á veislusalnum í skininu frá uppljómuðum gluggunum og óminum af veislugleðinni kom ekki nokkur manneskja til að hugga þær í auðmýkingu þeirra og einsemd. Þetta var saga margra kvenna fyrr og síðar. Aleinar verða þær að mæta hræðilegri neyð lífsins og annað hvort farast þær eða bjarga sér með sínu eigin hugrekki.
Konur fórna sér til að efla menn í menntun þeirra og störfum. Þær eiga ekki að gera það heldur eiga þær að efla sjálfar sig til að taka þátt í störfum og framförum heimsins. Biblían kennir þeim að það eiga þær að gera eins og stúlkurnar fimm sem tóku með sér olíu til að hafa lampa sína logandi.
Eins og sjá má, er hér orðin grundvallarbreyting á sögunni, þegar hún er túlkuð út frá sjónarhóli kvenna, ekki karla. Hér er sagan eins og hún birtist í Nýja testamentinu (fengið af biblian.is)
Enn sagði Jesús: „Þá er líkt um himnaríki og tíu meyjar sem fóru til móts við brúðgumann með lampa sína. Fimm þeirra voru fávísar en fimm hyggnar. Þær fávísu tóku lampa sína en höfðu ekki olíu með sér en hinar hyggnu tóku olíu með á könnum ásamt lömpum sínum. Nú dvaldist brúðgumanum og urðu þær allar syfjaðar og sofnuðu.
Um miðnætti kvað við hróp: Brúðguminn kemur, farið til móts við hann. Þá vöknuðu meyjarnar allar og tóku til lampa sína. En þær fávísu sögðu við þær hyggnu: Gefið oss af olíu yðar, það er að slokkna á lömpum vorum. Þær hyggnu svöruðu: Nei, hún nægir aldrei handa öllum. Farið heldur til kaupmanna og kaupið handa yður. Meðan þær voru að kaupa kom brúðguminn og þær sem viðbúnar voru gengu með honum inn til brúðkaupsins og dyrum var lokað.
Seinna komu hinar meyjarnar og sögðu: Herra, herra, ljúk upp fyrir oss. En hann svaraði: Sannlega segi ég yður, ég þekki yður ekki.
Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina.