Stjórn Kvenréttindafélags Íslands hefur samþykkt einróma umsókn Trans Íslands að gerast aðildarfélagi að Kvenréttindafélaginu.
Kvenréttindafélag Íslands var stofnað árið 1907 og er markmið félagsins að vinna að kvenréttindum og jafnri stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Félagið leggur áherslu á mannréttindi og vinnur gegn hvers konar mismunun.
Trans Ísland var stofnað árið 2007 og eru stuðnings- og baráttusamtök fyrir trans fólk á Íslandi. Trans Ísland hefur í gegnum tíðina verið helstu málsvari trans fólks á Íslandi.
Trans Ísland bætist í hóp annarra aðildarfélaga Kvenréttindafélags Íslands, Druslubækur og doðrantar, Femínísk fjármál, Fjöruverðlaunin, Rótin, Samtök um Kvennaathvarf og W.O.M.E.N. in Iceland, kvenréttindafélög og önnur almannaheillafélög sem vinna að sambærilegum stefnumálum og Kvenréttindafélag Íslands.
Tatjana Latinovic formaður Kvenréttindafélags Íslands sagði að þessu tilefni: „Kvenréttindafélag Íslands býður Trans Ísland velkomið í félagið. Kvenréttindafélagið hefur í rúmlega hundrað ár verið leiðandi í baráttunni fyrir kvenréttindum og jafnrétti kynjanna. Félagið hefur í starfi sínu lagt áherslu á að raddir úr öllum áttum fái að heyrast í baráttunni og síðustu árin höfum við unnið markvisst að því að eiga í samtali við fjölbreytt samtök sem starfa að kynjajafnrétti, hver á sínu sviði. Jafnrétti verður aldrei náð ef jafnrétti er ekki fyrir okkur öll og kvenfrelsi náum við aðeins í sameiningu.“
Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir formaður Trans Íslands sagði: „Það er mikið fagnaðarefni að Kvenréttindafélagið og Trans Ísland séu hér með að gera sitt samstarf formlegt.
Trans fólk og hinsegin fólk almennt er órjúfanlegur partur af femínískri baráttu og þurfum við öll að taka höndum saman til að kveða burt íhaldsöfl og áróður sem hafa risið upp á afturlappirnar gegn trans fólki víðsvegar um heim á undanförnum árum. Það er mikilvægt að við á Íslandi setjum fordæmi og sýnum að femínísk samstaða og barátta þarf að ná til okkar allra – ekki bara þeirra sem falla kyrfilega í ríkjandi kynjanorm eða önnur ríkjandi valdakerfi.“
Sem aðildarfélag að Kvenréttindafélag Íslands hefur Trans Ísland atkvæðisrétt á aðalfundi Kvenréttindafélags Íslands og þar með rödd í að skapa framtíðarstefnu þessa aldagamla félags sem vinnur ötullega að jafnrétti kynjanna á öllum sviðum samfélagsins.