Kvenréttindafélag Íslands hefur gengið í evrópsku samtökin European Women‘s Lobby (EWL, Hagsmunasamtök evrópskra kvenna) og mun gegna starfi tengiliðs íslenskra félagasamtaka við EWL.
EWL tengir saman kvennahreyfingar í þjóðríkjum Evrópu til að vera þrýstiafl fyrir kvenréttindi og jafnrétti kynjanna meðal almennings og innan evrópskra stofnanna. Samtökin voru stofnuð árið 1990 og eru höfuðstöðvar þeirra í Brussel. EWL eru stærstu regnhlífarsamtök kvennahreyfingarinnar í Evrópu. Kvennasamtök í 30 löndum eiga aðild að samtökunum, sem og 19 samtök sem starfa á evrópskum vettvangi, vettvangur fjölbreytts hóps kvenna og stúlkna.
Í tilefni af inngöngu Kvenréttindafélagsins í EWL sagði Gwendoline Lefebvre forseti samtakanna: „Við erum í skýjunum að Kvenréttindafélag Íslands sé nú tengiliður okkar á Íslandi, að þessi samtök sem hafa langa sögu baráttu fyrir kvenréttindum og femínisma bætist í hópinn. Það er frábært að aðildarfélög í nýjum löndum, einnig þeirra sem tilheyra EFTA, gangi í European Women‘s Lobby. Evrópska kvennahreyfingin verður sterkari þegar við vinnum saman í systralagi og lærum hvert af öðru. Kvenréttindafélag Íslands mun verða mikilvægur stuðningur í starfi okkar innan Evrópu og við erum spenntar að vinna saman að því að byggja femíníska Evrópu.“
Fríða Rós Valdimarsdóttir, formaður Kvenréttindafélags Íslands sagði: „Síðan á dögum súffragettanna sem börðust fyrir kosningarétti kvenna, hefur íslensk kvennahreyfing reitt sig á alþjóðlegan stuðning kvenréttindasamtaka. Við erum lítil eyja í miðju Atlantshafi, en við erum ekki einangruð þjóð. Innblástur og hugmyndir frá femínískum systrum okkar erlendis hafa verið ómetanlegar í baráttu okkar fyrir jafnrétti. Samstaða kvenna á Íslandi er sterk og hefur verið grundvöllur þeirrar samfélagsbreytinga sem hafa átt sér stað á síðustu árum. Við erum afar spenntar að ganga í European Women‘s Lobby, að vinna saman að jafnréttri framtíð. Með fjöldahreyfingu kvenna og fjölþjóðlegri samstöðu getum við stuðla að alvöru samfélagsbreytingum í Evrópu!“
Ein samtök í hverju landi hafa sæti í stjórn samtakanna og kosningarétt á aðalfundum EWL. Er þessum aðildafélögum ætlað að vera tengiliður annarra félagasamtaka við EWL. Kvenréttindafélag Íslands bætist nú í hóp þessara tengiliða.
Stjórn Kvenréttindafélagsins vinnur nú að tillögum að breytingum á lögum félagsins til að tryggja lýðræðisleg og traust samskipti við EWL. Þessar tillögur verða lagðar fram til samþykktar aðalfunds Kvenréttindafélags Íslands í apríl næstkomandi.