Kvenréttindafélag Íslands og velferðarráðuneytið hafa gert með sér samning um að félagið sinni fræðslu og upplýsingagjöf um jafnrétti kynjanna á innlendum og erlendum vettvangi.
Fríða Rós Valdimarsdóttir formaður Kvenréttindafélagsins og Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra og undirrituðu samstarfssamning á mánudaginn. Gildir samningurinn í eitt ár og er meginmarkmið hans fræðsla um jafnrétti kynjanna, bæði gagnvart almenningi en einnig með sértækri fræðslu fyrir tiltekna hópa.
Stjórn Kvenréttindafélagsins er afar þakklát félags- og jafnréttismálaráðherra og velferðarráðuneytinu að hefja þessa vegferð með okkur og styrkja starf Kvenréttindafélagsins á þessu ári sem við höldum upp á 110 ára afmæli okkar.
Ásamt öðrum verkefnum og starfi Kvenréttindafélagsins, gerir þessi samningur okkur kleift að halda: árlegt námskeið fyrir konur, þar á meðal konur af erlendum uppruna, um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, þar með talin borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi; árlegan samráðsfund með konum á Alþingi og í sveitarstjórnum um leiðir til að auka þáttöku kvenna og styrkja stöðu þeirra á vettvangi stjórnmálanna; árlegan samráðsfund með kennurum sem kenna kynja- og jafnréttisfræði á öllum skólastigum í því augnamiði að auka þekkingu og færni kennara á sviði jafnréttismála; kynjaþing frjálsra félagasamtaka á sviði jafnréttismála; og starfa að fræðslu fyrir almenning, meðal annars með árlegri útgáfu tímaritsins 19. júní, opnum fundum um jafnréttismál, útgáfu námsefnis um jafnréttismál á rafrænu formi eða prenti og með gerð upplýsingaefnis á íslensku og ensku til birtingar á vef félagsins.
Meðal annarra verkefna sem Kvenréttindafélagið vinnur að þessa dagana er að dreifa bókinni Við ættum öll vera femínistar eftir Chimamanda Ngozi Adichie sem félagið gefur til allra fyrsta árs nema á framhaldsskólastigi, námskeiði í stjórnmálaþátttöku fyrir konum að erlendum uppruna, að skipulagningu kynjaþings í mars 2018, að skipulagningu funds með frambjóðendum í Alþingiskosningum, að skipulagningu kvennasögugöngu og fund um menningu kvenna 24. október næstkomandi.
Við hlökkum til að sjá ykkur, kæru félagar, á Hallveigarstöðum í vetur!