Kvenréttindafélag Íslands og forsætisráðuneytið hafa gert með sér samning um að félagið sinni fræðslu, námskeiðshaldi og upplýsingagjöf um jafnrétti kynjanna á innlendum og erlendum vettvangi.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Fríða Rós Valdimarsdóttir, formaður stjórnar Kvenréttindafélagsins, undirrituðu samning þessa efnis í dag 6. febrúar 2019.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:
„Kvenréttindafélagið hefur gegnt afar mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi í rúma öld. Við vitum að þekking er mikilvægasta tækið til að takast á við kynjakerfið og þess vegna skiptir miklu að rótgróið félag eins og Kvenréttindafélagið hafi tök á að sinna fræðslu- og upplýsingamálum.“
Meginmarkmiðið samningsins er að efla fræðslu fyrir almenning um kynjajafnréttismál í samræmi við markmið laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Samkvæmt samningnum skal Kvenréttindafélagið sinna árlegri útgáfu tímaritsins 19. júní, opnum fundum, útgáfu námsefnis um jafnréttismál á rafrænu formi eða prenti og með gerð upplýsingaefnis á íslensku og ensku til birtingar á vefsvæði félagsins.
Auk almennrar fræðslu skal Kvenréttindafélagið m.a. standa að:
- Námskeiði fyrir konur, þar á meðal konur af erlendum uppruna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, og einnig um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, með það að markmiði að auka þátttöku allra kvenna í umræðu og starfi á opinberum vettvangi.
- Árlegum samráðsfundum með konum á Alþingi og í sveitarstjórnum um leiðir til að auka þátttöku kvenna og styrkja stöðu þeirra á vettvangi stjórnmálanna.
- Árlegum samráðsfundum með kennurum sem kenna kynja- og jafnréttisfræði á öllum skólastigum í því augnamiði að auka þekkingu og færni kennara á sviði jafnréttismála.
- Árlegu kynjaþingi frjálsra félagasamtaka á sviði jafnréttismála.
Samningurinn gildir frá 15. febrúar 2019 til 15. febrúar 2020 og greiðir forsætisráðuneytið Kvenréttindafélaginu 10 milljónir króna til að sinna þeim verkþáttum sem samningurinn tekur til. Kveðið er á um að framkvæmd verkefna samkvæmt samningnum fari fram í nánu samráði við skrifstofu jafnréttismála í forsætisráðuneytinu.