Joyce Banda, nýr forseti Malaví. Ljósmynd: Stephane De Sakutin/AFP/Getty Images

Joyce Banda, nýr forseti Malaví. Ljósmynd: Stephane De Sakutin/AFP/Getty Images

Joyce Banda, kvenréttindakona, hefur tekið við forsetaembætti í Malaví, fyrst kvenna í suðurhluta Afríku. Banda tók við embættinu eftir lát forsetans Bingu wa Mutharika, en hún hafði gegnt embætti varaforseta í stjórn hans.

Banda er 61 árs gömul og hefur lengi starfað fyrir réttindum kvenna. Banda dreymir um að rífa afrískar konur úr þeirri hringrás fátæktar og ofbeldis sem margar hverjar búa við. Í viðtali á síðasta ári við Global Post nefndi hún æskuvinkonu sína sem ástæðuna fyrir því að hún hefur svo lengi barist fyrir réttindum kvenna. Banda sagði að vinkona sín stóð sig mun betur í skóla en hún, en neyddist svo til að hætta í menntaskóla eftir aðeins eina önn þar sem fjölskylda hennar hafði ekki efni á að borga 12 bandaríkjadali í skólagjöld.

„Ég hélt áfram og fór í háskóla og ég varð varaforseti Malaví. Hún er ennþá þar sem hún var

fyrir þrjátíu árum. Skelfileg hringrás fátæktar hefur haldið henni fastri og tók af henni alla valkosti. Ég gerði upp við mig á þeim tímapunkti að ég myndi senda stúlkur í skóla hvað sem það skyldi kosta.“

Banda lauk háskólagráðu í grunnskólakennslu frá háskóla í Bandaríkjunum. Hún stofnaði seinna klæðskerafyrirtæki og bakarí og nýtti hluta ágóðans til að kosta fátækar stúlkur til náms. Hún hefur stofnað þrjú stór félagasamtök í Malaví: National Association of Business Women sem starfar að því að hjálpa fátækum konum að stofna eigin fyrirtæki, Joyce Banda Foundation sem styrkir stúlkur til náms og Young Women‘s Leaders Network.

Árið 2004 tók hún sæti sem ráðherra fyrir málefnum kynja, velferð barna og samfélagsþjónustu, og barðist þar fyrir frumvarpi til laga gegn heimilisofbeldi. Hún var skipuð utanríkisráðherra árið 2006 og varaforseti 2009. Á seinasta ári nefndi tímaritið Forbes hana þriðju valdamestu konu Afríku, á eftir forseta Líberíu Ellen Johnson Sirleaf og nígerska fjármálaráðherranum Ngozi Okonjo-Iweala. Banda var skipuð forseti Malaví 7. ap

ríl síðastliðinn.

Þróunarsamvinnustofnun Íslands hefur starfað í Malaví síðan 1989. ÞSSÍ er sjálfstæð ríkisstofnun sem heyrir undir utanríkisráðuneytið. Hún var stofnuð með lögum árið 1981 og er ætlað að vinna að tvíhliða samstarfi Íslands við þróunarlönd. Áhersla er lögð á samvinnu við þau lönd þar sem lífskjörin eru lökust og er aðstoðin einkum veitt á þeim sviðum þar sem Íslendingar búa yfir sérstakri þekkingu og reynslu.

Flest verkefni ÞSSÍ í Malaví eru í Mangochi héraði, og eru þau á sviði heilbrigðismála, menntunar, fiskimála og vatns- og hreinlætisverkefna. Auk þess styður ÞSSÍ fjárhagslega við sjúkrahús í höfuðborginni Lilongwe og styður við verkefni sem snýr að konum sem hafa orðið fyrir heimilisofbeldi.

Hér má lesa meira um Malaví á heimasíðu Þróunarsamvinnustofnunnar Íslands.

Frétt þýdd frá Reuters

Aðrar fréttir