Hið árlega Kynjaþing Kvenréttindafélagsins er haldið í næstu viku, 9. til 13. nóvember. Í ár fer dagskrá Kynjaþings fram eingöngu á veraldarvefnum!

Fjöldi samtaka halda viðburði á Kynjaþingi: BSRB, Efling, Femínísk fjármál, Félag kvenna í atvinnulífinu, Kvennaathvarfið, Kítón, Kvennahreyfing ÖBÍ, Kvennasögusafnið, Kvenréttindafélagið, Samtök um líkamsvirðingu, Samtökin ’78, Stelpur rokka!, Trans Ísland, UN Women á Íslandi, WIFT, og W.O.M.E.N. in Iceland. Hægt er að fylgjast með öllum viðburðum á Facebooksíðu Kynjaþings og á Kynjathing.is.

Kvenréttindafélag Íslands stendur að fimm viðburðum á þinginu í ár, pallborðsumræðum um kynjafræðikennslu í framhaldsskólum á tímum COVID-19, pallborðsumræðum um betra fæðingarorlof, spjalli sveitarstjórnarkvenna um stöðu kvenna í sveitarstjórnmálum, og tveimur viðburðum um transfemínisma og samstarf hinsegin hreyfingarinnar og kvennahreyfingarinnar, einn á íslensku og annan á ensku.

Enn fremur tekur formaður Kvenréttindafélagsinsn þátt í viðburði Femínískra fjármála um efnahagsaðgerðir stjórnvalda í kjölfar COVID-19.

Allir viðburðir Kynjaþings eru teknir upp og birtir á Youtube síðu Kvenréttindafélagsins.