Kvenréttindafélagið, UN Women á Íslandi, Ungar athafnakonur, Landssamband ungmennafélaga og Stígamót boða til málstofu um átaksverkefni UN Women Kynslóð jafnréttis (e. Generation Equality Forum). Viðburðurinn fer fram fimmtudaginn 1. júlí kl. 15.30 –17.30 í Veröld, húsi Vigdísar. Að loknum fundi verður boðið upp á léttar veitingar.
Efnt er til málstofunnar í tilefni af ráðstefnu franskra stjórnvalda sem fram fer í París dagana 30. júní – 2. júlí næstkomandi og með stuðningi stýrihóps forsætisráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins um þátttöku í íslenskra stjórnvalda í verkefninu og franska sendiráðsins á Íslandi. Á málstofunni verður verkefnið kynnt og efnt til umræðna um áherslur íslenskra stjórnvalda á vettvangi þess.
Streymt verður beint frá dagskrá ráðstefnunnar í París þar sem Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra kynnir skuldbindingar íslenskra stjórnvalda í verkefninu. Aðrir frummælendur ræða um áskoranir er varðar kynbundið og kynferðislegt ofbeldi, einkum í tengslum við aðra bylgju #metoo hreyfingarinnar hér á landi og hvaða áhrif þátttaka Íslands í verkefninu getur haft á alþjóðavettvangi. Fanney Birna Jónsdóttir, fjölmiðlakona fer með fundar- og umræðustjórn.
Kynslóð jafnréttis er alþjóðlegt jafnréttisátak sem hófst árið 2020 í tilefni 25 ára afmælis framkvæmdaáætlunarinnar frá Peking. Markmið þess er að ríki, alþjóðastofnanir, frjáls félagasamtök og einkaaðilar sameinist um úrbætur á sviðum þar sem enn hallar á konur og stúlkur í samræmi við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Frönsk og mexíkósk stjórnvöld fara ásamt UN Women með yfirstjórn verkefnisins. Átakið er unnið á sex málefnasviðum og stýrt af aðgerðabandalögum. Íslensk stjórnvöld veita aðgerðabandalagi um kynbundið ofbeldi (e. Action Coalition on Gender Based Violence) forystu. Á ráðstefnunni í París kynna bandalögin sex aðgerðir sem miða að hraðari framþróun á sviði jafnréttismála til næstu fimm ára.
Dagskrá
15:30. Mæting
15:40. Kynslóð jafnréttis – Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi, opnar málstofuna.
15:47. Generation Equality Forum Paris – Graham Paul, sendiherra Frakklands á Íslandi ávarpar gesti.
15:55. Ávarp – Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, kynnir skuldbindingar íslenskra stjórnvalda á ráðstefnu franskra stjórnvalda í París um Kynslóð jafnréttis.
16:00. Umbætur innan íslenska réttarvörslukerfisins – um skuldbindingar íslenskra stjórnvalda í aðgerðabandalagi um kynbundið ofbeldi – Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri.
16:10. Skuldbindingar íslenskra stjórnvalda í alþjóðasamstarfi og þróunarsamvinnu – Guðrún Þorbjörnsdóttir, fulltrúi utanríkisráðuneytisins í stýrihópi um þátttöku íslenskra stjórnvalda í Kynslóð jafnréttis.
16:20. Kynbundið ofbeldi á Íslandi – Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta.
16:30. Samtal kynslóða – Pallborð
Umræðustjóri: Fanney Birna Jónsdóttir
Hverjar eru áskoranirnar? Hvaða árangur hefur náðst? Hvað þarf til? Önnur #MeToo bylgjan á Íslandi og aukin vitund almennings á kynbundnu ofbeldi. Hvernig er hægt að tryggja að jafnrétti nái til allra og enginn verði útundan?
- Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, listfræðingur og aktífisti
- Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, kynjafræðingur og kennari
- Þorsteinn V. Einarsson, kynjafræðingur og ritstjóri Karlmennskunnar
- Drífa Jónasdóttir, afbrotafræðingur og verkefnastýra hjá Kvennaathvarfinu
17:05. Unga fólkið og framtíðin – Eva Dröfn Hassell Guðmundsdóttir, Ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði kynjajafnréttis.
17:08. Fundarlok – Tatjana Latinović, formaður Kvenréttindafélag Íslands.
17:10. Léttar veitingar