Konur mótmæla í launamisrétti kynjanna í Sidney, Ástralíu 2010 / AFP

Konur mótmæla í launamisrétti kynjanna í Sidney, Ástralíu 2010 / AFP

Laun 150.000 starfsmanna í félagsþjónustu í Ástralíu munu hækka um 19% til 41% eftir að dómur féll 1. febrúar síðastliðinn. Verkalýðsfélög leituðu til Fair Work Australia, dómstóls sem tekur á málefnum vinnumarkaðsins og kvörtuðu yfir því að starfsfólk í félagsþjónustu fær greitt lægri laun en starfsmenn í sambærilegum störfum. Áttatíu prósent starfsmanna í félagsþjónustunni í Ástralíu eru konur og verkalýðsfélögin héldu því fram að lág laun í þessum geira væri merki um launamisrétti kynjanna. Ástralía samþykkti árið 1972 lög um launajafnrétti kynjanna.

Ríkisstjórn Ástralíu studdi verkalýðsfélögin í umsókn sinni og lagði til 2 milljarða ástralska dali næstu sex árin til að borga launahækkanirnar. Júlía Gillard, forsætisráðherra Ástralíu, fagnaði úrskurðinum og sagði hann vera „mikla framþróun í átt að raunverulegu launajafnrétti kvenna“. Félög atvinnurekenda hafa sagt dóminn vera „hættulegan“ og að nauðsynlegt sé að koma í veg fyrir að fleiri verkalýðsfélög kæri launamisrétti kynjanna.

Árið 1976 voru samþykkt jafnréttislög á Alþingi þar sem réttur karla og kvenna til sama kaups fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf var staðfestur. Þó viðhelst kynbundið launamisrétti hér á landi. Í könnun sem SFR – Stéttarfélag í almannaþjónustu lét gera árið 2011 kom fram að heildarlaun kvenna í fullu starfi eru 24% lægri en hjá körlum og að kynbundinn launamunur í félaginu mælist 13,2%.

Hér er hægt að lesa grein Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra um launajafnrétti kvenna sem birtist í Fréttablaðinu 22. október 2011.

Og hér er hægt að lesa úrskurð Fair Work Australia.

Aðrar fréttir