19. júní er ársrit Kvenréttindafélags Íslands. Það er með elstu tímaritum á Íslandi og hefur komið út á hverju ári frá því árið 1951. Í ritinu er fjölbreytt safn greina um ýmis jafnréttismál og flest árin hefur ritið haft ákveðið þema.
Kvenréttindafélag íslands óskar eftir ritstýru fyrir 19. júní 2024. Hlutverk ritstýru er að:
- skipuleggja efni blaðsins í samræmi við þema sem stjórn Kvenréttindafélagsins hefur ákveðið
- finna greinarhöfunda, semja við þá og sjá til þess að þeir skili efni í ritið á tilsettum tíma
- semja við listakonu/kvár um gerð forsíðu ritsins
- finna myndefni í ritið
- finna prófarkarlesara og sjá til þess að allar greinar séu prófarkarlesnar í tíma fyrir uppsetningu
- samþykkja próförk frá uppsetjara í samstarfi við ritstjórn og framkvæmdastýru Kvenréttindafélagsins
- vinna náið með framkvæmdastýru og stjórn Kvenréttindafélagsins varðandi efni blaðsins
Framkvæmdastýra Kvenréttindafélagsins sér um að afla auglýsinga í blaðið til þess að fjármagna útgáfu þess sem og að koma ritinu í prent þannig að ritstýra þarf ekki að sinna því.
Ritstýra hefur aðstöðu á skrifstofu félagsins. Ritið verður sent til félaga í Kvenréttindafélagi Íslands ekki seinna en 18. júní og ætlast er til að það komi úr prenti vikuna á undan.
Ritstýra og greinahöfundar fá greitt fyrir sína vinnu. Þema ársins 2024 er „staða femínisma í jafnréttisparadís“.
Umsóknir
Áhugasöm senda póst með ferilskrá á audur@krfi.is merkt ritstýra 19. júní