Á stjórnarfundum Kvenréttindafélags Íslands hefur marg oft komið upp umræða um slaka stöðu kvenna í stjórnum íslenskra lífeyrissjóða sem og í öðrum íslenskum fjármálafyrirtækjum. Nú er svo komið að í stjórnum þriggja lífeyrissjóða: Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, Lífeyrissjóðs starfsmanna Akureyrarbæjar og Stapa – lífeyrissjóði, er kynjahlutfall stjórnarmanna jafnt. Var Lífeyrissjóður Norðurlands jafnframt fyrsti íslenski lífeyrissjóðurinn til að kjósa jafnt hlutfall kynjanna í stjórn sína, en Stapi – lífeyrissjóður varð til við samruna Lífeyrissjóðs Norðurlands og lífeyrissjóðs Austurlands fyrir stuttu.
Kvenréttindafélag Íslands fagnar þessu og sendir sjóðunum árnaðaróskir að því tilefni. Munu stjórnarkonur Kvenréttindafélags Íslands jafnframt afhenda sjóðunum blóm í viðurkenningaskyni og verður fyrsta afhendingin á ársfundi Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, mánudaginn 16. apríl kl. 17:00 á Grand Hótel.