Gleði ríkti á Hallveigarstöðum í vikunni, þegar konur fögnuðu útskrift úr Stjórnmálaskóla Kvenréttindafélags Íslands.
Síðustu tvo mánuði hafa tæplega 20 konur af erlendum uppruna hist vikulega til að fræðast um stjórnmál og pólitískt starf á Íslandi. Á námskeiðinu var farið yfir starf og stefnumál helstu stjórnmálaflokka og hagsmunasamtaka, farið yfir „óskrifaðar reglur“ stjórnmálanna og unnið að tengslamyndun þátttakenda.
Sabine Leskopf varaborgarfulltrúi kenndi námskeiðið og góðir gestir sóttu námskeiðið heim, fulltrúar allra flokka sem eiga sæti á Alþingi og konur af erlendum uppruna sem hafa látið til sín taka í stjórnmálum, bæði á landsvísu og á sveitarstjórnarstigi. Í síðustu viku var nemendum boðið í vettvangsheimsókn á Alþingi og einnig gafst þeim tækifæri til að bjóða fram krafta sína við skipulagningu á ársþingi alþjóðlegu samtakanna WPL – Women Political Leaders sem haldið er í Reykjavík í lok nóvember, en von er á 350 þingkonum og konum sem gegna eða hafa gegnt starfi þjóðarleiðtoga á þann fund.
„Samfélög verða þeim mun betri, skemmtilegri og sterkari, því fjölbreyttari raddir og sjónarmið sem fá að heyrast. Það er einlæg skoðun mín að Ísland græði á því þegar við búum til rými fyrir fleiri og mismunandi raddir í umræðunni, hvort sem er um stjórnmálin, samfélagið eða skólamál. Konurnar sem tóku þátt á námskeiðinu hafa sannað það,“ segir Tatjana Latinovic varaformaður Kvenréttindafélags Íslands.
Kvenréttindafélag Íslands skipulagði námskeiðið sem styrkt var af þróunarsjóði innflytjendamála, velferðarráðuneytinu, Reykjavíkurborg og Seltjarnarnesbæ.