Ný stefnuskrá Kvenréttindafélags Íslands var samþykkt á aðalfundi 29. maí 2018 og staðfest á fyrsta stjórnarfundi nýrrar stjórnar 20. júní síðastliðinn.


Markmið Kvenréttindafélags Íslands er að vinna að kvenréttindum og jafnri stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Félagið leggur áherslu á mannréttindi í víðum skilningi og vinnur gegn hvers konar mismunun.

Til þess að ná fram þessum markmiðum stefnir félagið á að taka þátt í samfélagslegri umræðu með virkum hætti og einbeita sér að eftirfarandi verkefnum og áherslum, sem hafa skýr feminísk markmið og víða samfélagslega skírskotun.

Grundvallarréttindi

Við höfum öll grundvallarrétt til lífs og líkama. Kvenréttindafélag Íslands beitir sér fyrir því að tryggja ákvörðunarrétt fólks yfir eigin líkama. Félagið beitir sér gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi á öllum sviðum.

Kvenréttindafélagið vinnur að félagslegum réttindum kvenna

Félagið beitir sér fyrir því að tryggja kynja- og jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum og að brjóta upp kynjakerfið. Félagið gætir að samtvinnun félagslegra breytna við ákvarðanatöku og hefur það ávallt í huga að jafnréttishugtakið breytist í takt við tímann.

Kvenréttindafélagið vinnur að stjórnmálalegum réttindum kvenna

Félagið beitir sér fyrir því að styrkja stöðu kvenna í stjórnmálum og opinberum embættum og fyrir fjölgun kvenna í stjórnmálum, opinberum embættum og dómskerfinu. Félagið beitir sér fyrir jafnrétti í opinberri stjórnsýslu, s.s. með samþættingu kynjaðra sjónarmiða og kynjaðri fjárhagsgerð.

Kvenréttindafélagið vinnur að efnahagslegum réttindum kvenna

Félagið beitir sér fyrir fjárhagslegu sjálfstæði kvenna, að tryggja stöðu kvenna og bæta kjör þeirra í hvívetna óháð fötlun, aldri, búsetu, uppruna, litarhætti, kynhneigð, kynvitund og skoðana. Félagið beitir sér fyrir því að uppræta kjaramun kynjanna. Félagið beitir sér fyrir betra fæðingarorlofskerfi og styttingu vinnuviku með jafnréttissjónarmið að leiðarljósi. Félagið beitir sér gegn ofbeldi og áreitni á vinnumarkaði. Jöfn kjör og jöfn laun STRAX!

Samþykkt á aðalfundi 29. maí 2018.

Aðrar fréttir