Aðalfundur Kvenréttindafélags var haldinn 28. mars 2011 á Hallveigarstöðum. Auk venjulegra aðalfundarstarfa, þar sem reikningar og skýrslur stjórnar voru lagðar fram, var kosið í framkvæmdastjórn félagsins en hana skipa 8 konur.

Embætti formanns félagsins var til kjörs og bauð varaformaður félagsins, Helga Guðrún Jónasdóttir, sig ein fram og var kosin nýr formaður KRFÍ. Varaformaður var kjörin Guðrún Margrét Guðmundsdóttir, sem áður var ritari félagsins. Auk þess gáfu þrjár stjórnarkonur kost á sér til áframhaldandi starfa fyrir félagið, þær Ragnhildur G. Guðmundsdóttir, Hildur Helga Gísladóttir og Ragnheiður Bóasdóttir. Þrjár nýjar stjórnarkonur voru síðan kosnar á fundinum. Þær eru: Fríða Rós Valdimarsdóttir, Inga Guðrún Kristjánsdóttir og Margrét Björnsdóttir sem allar hafa reynslu af jafnréttismálum.

KRFÍ býður þær velkomnar til starfa.

Úr stjórn véku Margrét K. Sverrisdóttir, sem gegnt hefur embætti formanns félagsins undanfarin 3 ár, ásamt Margréti Steinarsdóttur og Sólborgu A. Pétursdóttur. Allar hafa þær áralanga stjórnarsetu að baki og unnið mörg verkin fyrir félagið. KRFÍ þakkar þeim fyrir ómetanlegt framlag til starfsins og þakkar samstarfið á undanförnum árum.


Starf KRFÍ hefur verið óslitið frá árinu 1907. Óhætt er að fullyrða að óeigingjarnt starf þeirra fjölmörgu kvenna sem komið hafa að starfi félagsins hafi átt þátt í mörgum af þeim sigrum sem unnir hafa verið á sviði jafnréttismála á Íslandi. Sá árangur sem konur á Íslandi hafa náð hefur þar að auki vakið heimsathygli og er samstarf við erlenda aðila, ásamt því að svara fyrirspurnum, taka á móti sendinefndum og veita erlendum fjölmiðlum viðtöl, sífellt að aukast. Framundan er þó einna brýnast fyrir félagið að tryggja starfsgrundvöll sinn þar sem opinberum styrkjum hefur fækkað (og lækkað) til muna.

Á aðalfundinum kom fram sú tillaga að hækka félagsgjöldin enda hafa þau verið óbreytt í mörg ár. Gæti það verið eitt skref i þeirri viðleitni að halda skrifstofu félagsins opinni en í byrjun ársins stefndi í það að loka þyrfti skrifstofunni frá og með haustinu 2011 vegna erfiðrar fjárhagsstöðu félagsins. Tillagan var samþykkt og verða félagsgjöldin því nú 3.500 kr.  Gíróseðill verður að vanda sendur til félaga í sumar ásamt tímaritinu 19. júní. 

Aðrar fréttir