Útvarpsþátturinn Ólgusjór kvenréttindabaráttunnar: 19. júní fyrr og síðar var á dagskrá Rásar 1 þann 19. júní.
Þátturinn er afrakstur starfs ritnefndar 19. júní, en í ár samanstendur hún af: Brynhildi Heiðar- og Ómarsdóttur, bókmenntafræðingi og framkvæmdastýru KRFÍ, Fríðu Rós Valdimarsdóttur, mannfræðingi og ritara KRFÍ, Eygló Árnadóttur, mann- og kynjafræðingi og nýjustu stjórnarkonu KRFÍ, Helgu Birgisdóttur sem vinnur að doktorsritgerð um íslenskar barnabókmenntir, Hildi Knútsdóttur, rithöfundi og tískubloggara og Helgu Þóreyju Jónsdóttur, bókmenntafræðingi.
Ritnefndin lagði höfuðið í bleyti og sótti um að gera hátíðarþátt á Rás 1 í tilefni 19. júní. Í þættinum er fjallað um sögu kosningaréttar kvenna á Íslandi og íslenskrar kvennabaráttu á 20. og 21. öldinni. Við stiklum á stóru yfir þrjár bylgjur feminismans, veltum fyrir okkur sögu hugtaksins feminisma á Íslandi, förum niður í Kringlu og spyrjum gesti og gangandi hvort þau geti sagt okkur hvað feminismi er. Og við veltum því fyrir okkur hvort að ný bylgja kvenréttindabaráttu sé að hefja sig á loft.
Umsjónarmenn þáttarins eru Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir og Helga Birgisdóttir. Lesari með þeim er Hjörtur Jóhann Jónsson.
Þátturinn verður endurtekinn laugardaginn 23. júní kl. 8:05 um morguninn, en einnig er hægt að hlusta á hann hér.