Kvenréttindi eru mannréttindi allra kvenna, líka kvenna á flótta!
****
Að undanförnu hefur verið greint frá nokkrum tilfellum þar sem ungum, einstæðum konum á flótta, sem hafa sætt kynferðislegu- og kynbundnu ofbeldi, kynfæralimlestingum og annarri ómannúðlegri meðferð hefur verið neitað um alþjóðlega vernd á Íslandi og bíða nú brottvísunar, meðal annars til Grikklands þar sem þær hafa sætt mismunun, fordómum og ofbeldi (sjá viðtal í Kjarnanum).
Við undirrituð boðum til samstöðufundar með konum á flótta laugardaginn 4. desember kl. 14:00 á Austurvelli.
Á fundinum viljum við sýna konum á flótta að þær standa ekki einar. Um leið viljum við mótmæla meðferð Útlendingastofnunar og Kærunefndar Útlendingamála í málum þriggja flóttakvenna sem eiga allar sameiginlegt að vera þolendur kynbundins ofbeldis.
Sú ákvörðun að neita meðvitað konum í sérstaklega viðkvæmri stöðu um vernd hér á landi er brot á íslenskum lögum sem og alþjóðlegum skuldbindingum íslenskra sjtórnvalda eins og Kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna, Samningi Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali og Istanbúlsamningsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gagnvart konum. Ákvörðunina ber að afturkalla tafarlaust.
Mótmælin beinast einnig gegn þeirri ómannúðlegu stefnu sem íslensk yfirvöld eru að móta í málefnum hælisleitenda. Konurnar sem um ræðir hafa orðið fyrir miklu ofbeldi á Grikklandi og yfirgnæfandi líkur eru á því að þær verði fyrir því ofbeldi aftur. Þetta viðurkenna íslensk yfirvöld, en það breytir samt ekki niðurstöðu þeirra um að senda eigi konurnar úr landi.
Það er því ljóst að þau sjónarmið sem íslensk stjórnvöld segjast hafa í hávegum, meðal annars um kynjajafnrétti, kvenfrelsi og vernd fyrir konur í viðkvæmri stöðu ná ekki til kvenna á flótta. Í augum íslenskra yfirvalda eru sumar konur víst jafnari en aðrar þegar kemur að vernd gegn ofbeldi.
Við krefjumst þess að konurnar, og börn þeirra þar sem um ræðir, fái samstundis og skilyrðislaust dvalarleyfi á Íslandi, viðeigandi læknisþjónustu og stuðning við að koma sér fyrir í íslensku samfélagi.
Við krefjumst þess einnig að íslenska ríkið virði réttindi alls flóttafólks og köllum eftir víðtækri femínískri samstöðu með öllum konum á flótta.