Konur á Íslandi hafa brotið glerþakið í stjórnmálum. Í dag eru konur 38% þingmanna á Alþingi, sem er vissulega afturhvarf frá því sem áður var, og 47,1% bæjarfulltrúa í sveitarstjórnum. Á Vesturlandi, Vestfjörðum og höfuðborgarsvæðinu eru konur meirihluti sveitarstjórnarfulltrúa. Kynjahlutfallið hefur aldrei verið jafnara, þrátt fyrir það er ekki hægt að segja að kynjajafnrétti ríki innan stjórnmálanna. Meirihluti þeirra flokka sem nú bjóða fram lista í alþingiskosningum tryggja að kynjahlutfallið sé sem jafnast, en ekki allir.
Árið 2017 voru það konur í stjórnmálum sem riðu fyrstar á vaðið til að birta sögur undir myllumerkinu #MeToo, og afhjúpuðu þar kynbundna og kynferðislega áreitni og ofbeldi sem þrífst á sviði stjórnmála.
Hver er reynsla kvenna af starfi í stjórnmálum? Eru enn reykfyllt bakherbergi þar sem konum er ekki hleypt að? Skiptir máli að tryggja jafna þátttöku kynjanna í pólitík?
Kvenréttindafélag Íslands heldur fund með konum í stjórnmálum á Kynjaþingi, 2. nóvember næstkomandi, kl. 16:00 í Norræna húsinu.
Hanna Katrín Friðriksson alþingismaður, Heiða Björg Hilmisdóttir borgarfulltrúi og formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar, Sóley Björk Stefánsdóttir bæjarfulltrúi á Akureyri og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir alþingismaður og formaður laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins ræða málin.
Auður Jónsdóttir stýrir umræðum.