Árið 2015 fögnuðum við því að 100 ár eru liðin frá því að konur á Íslandi fengu kosningarétt. Að því tilefni fór Kvenréttindafélag Íslands á flakk um landið og setti upp sýningu um sögu kvennabaráttunnar í 12 sveitarfélögum landsins. Sýningin var gerð af Brynhildi Heiðar- og Ómarsdóttur og Kolbrúnu Önnu Björnsdóttur.
Förin hófst í Snorrastofu í Reykholti í janúar 2015 og endaði í Hafnarfirði desember það árið. Á leiðinni heimsóttum við Stykkishólm, Ísafjörð, Blönduós, Akureyri, Húsavík, Egilsstaði, Höfn í Hornafirði, Vestmannaeyjar, Árborg og Reykjanesbæ.
Sýningin var sett upp í samstarfi við sveitarfélögin á landinu. Hún var styrkt af velferðarráðuneytinu, Framkvæmdanefnd um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna, Frakt.is og TVG – Zimsen.