Sigurður Jónasson frá Eyjólfsstöðum í Vatnsdal (1863-1887)
Sigurður Jónasson frá Eyjólfsstöðum í Vatnsdal (1863-1887)

Sigurður Jónasson frá Eyjólfsstöðum í Vatnsdal (1863-1887)

Sunnudaginn 27. september nk. verður á Blönduósi afhjúpaður stöpull til minningar um Sigurð Jónasson (1863-1887) frá Eyjólfsstöðum í Vatnsdal og bókmenntaafrek hans, en hann íslenskaði á unga aldri bókina „Kúgun kvenna“ eftir enska heimspekinginn John Stuart Mill. Sjá nánar um Sigurð Jónasson í grein Þórs Jakobssonar sem birtist í 19. júní 1999.

Athöfnin verður kl. 13:00 sunnudaginn 27. þessa mánaðar og mun taka um 45 mínútur. Eftirtaldir muna flytja stutt ávörp: a)Valgarður Hilmarsson forseti bæjarstjórnar Blönduósbæjar, b) Þór Jakobsson veðurfræðingur, verkefnisstjóri, c) Kristín Margrét Sigurðardóttir fyrir hönd fjölskyldunnar, d) fulltrúi stjórnar Kvenréttindafélags Íslands og e) Auður Styrkársdóttir forstöðumaður Kvennasögusafnsins og formaður Alþingisnefndar um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Að lokum munu ungmenni á Blönduósi kippa í spottann.

Stöpullinn verður reistur á mótum Húnabrautar og Árbrautar (handan við Árbraut 1 og Húnabraut 9. Sjá t.d. til glöggvunar á götukorti ja.is).

Verkefnið er unnið að frumkvæði ættmenna Sigurðar Jónassonar og kostað af þeim, Blönduósbæ og frjálsum framlögum áhugafólks. Uppbyggingarsjóður Norðurlands vestra veitti rausnarlegan styrk. Kvenréttindafélag Íslands hefur stutt verkefnið með ráðum og dáð og einnig hefur Kvenfélagasamband Íslands, Þekkingarsetrið á Blönduósi o.fl. veitt lið hugmyndinni um stöpulinn. Þess má geta að svo vill til að minningarstöpullinn verður afhjúpaður á fæðingardegi frumkvöðuls kvenréttinda á Íslandi, Bríetar Bjarnhéðinsdóttur, 27. september.

Ákvörðun tekin að gefa út "Frelsi-Kvenna" eða "Kúgun kvenna" eftir John Stuart Mill í íslenskri þýðingu Sigurðar Jónassonar, á fundi Hins íslenska kvenfélags 22. febrúar 1900. (Lbs 971 fol.)

Ákvörðun tekin að gefa út „Frelsi-Kvenna“ eða „Kúgun kvenna“ eftir John Stuart Mill í íslenskri þýðingu Sigurðar Jónassonar, á fundi Hins íslenska kvenfélags 22. febrúar 1900. (Lbs 971 fol.)

Hið íslenzka kvenfélag stóð að útgáfu „Kúgun kvenna“ árið 1900, og þar að baki voru margar af helstu súffragettum Íslands, svo sem Bríet, Þorbjörg Sveinsdóttir, Ingibjörg Bjarnason og Ólafía Jóhannsdóttir. Landsbókasafn Íslands hefur nýlega birt fundargerðabækur Hins íslenzka kvenfélags á veraldarvefnum, og þar má meðal annars lesa um þann merkilega fund þegar útgáfan er ákveðin. Lesið meira um fundinn í grein Brynhildar Heiðar- og Ómarsdóttur „Leifturskot úr fortíðinni — súffragettur ræða málin (og rífast um tombólur)“.

Málmsteypan Hella í Hafnarfirði og Steinsmiðja S. Helgasonar unnu verkið.

Allir eru velkomnir að vera við afhjúpunina.

Aðrar fréttir