Á aðalfundi Kvenréttindafélags Íslands sem haldinn var fyrr í dag 30. apríl 2021 var Tatjana Latinovic endurkjörin formaður Kvenréttindafélags Íslands og aðild Trans Íslands að félaginu staðfest.
Tatjana Latinovic var fyrst kjörin formaður Kvenréttindafélagsins árið 2019, en er hún fyrsta konan af erlendum uppruna sem gegnir því embætti. Í embættistíð sinni hefur Tatjana lagt áherslu á að raddir úr öllum áttum fái að heyrast í baráttunni og unnið markvisst að því að eiga í samtali við fjölbreytt samtök sem starfa að kynjajafnrétti, hvert á sínu sviði.
Trans Ísland sótti um aðild að Kvenréttindafélagi Íslands árið 2020 og var umsókn þeirra samþykkt af stjórn félagsins. Í dag staðfesti aðalfundur samhljóða aðild Trans Íslands.Trans Ísland eru stuðnings- og baráttusamtök fyrir trans fólk á Íslandi og bætist í hóp annarra aðildarfélaga Kvenréttindafélagsins: Druslubækur og doðrantar, Femínísk fjármál, Fjöruverðlaunin, Rótin, Samtök um kvennaathvarf og W.O.M.E.N. in Iceland.
Á aðalfundi var kosið í stjórn og nefndir Kvenréttindafélags Íslands. Tvær nýjar stjórnarkonur voru kjörnar í stjórn félagsins, Lára Aðalsteinsdóttir og María Hjarðar. Þakkar félagið fráfarandi stjórnarkonum Bergljótu Tulinius Gunnlaugsdóttur og Dóru Magnúsdóttur fyrir störf sín í þágu félagsins.
Í stjórn Kvenréttindafélags Íslands sitja nú Tatjana Latinovic formaður, Ellen Calmon, Helga Dögg Björgvinsdóttir, Hildur Helga Gísladóttir, Rut Einarsdóttir, Sólveig Jónasdóttir og Stefanía Sigurðardóttir. Eva Huld Ívarsdóttir, Lára Aðalsteinsdóttir og María Hjarðar eru varamenn í stjórn.
Margar áskoranir bíða stjórnar Kvenréttindafélags Íslands, ekki síst vegna samfélagslega áskorana í kjölfar heimsfaraldursins COVID-19 þegar þrengir verulega að réttindum og hag kvenna á mörgum sviðum. Félagið mun halda áfram að vera leiðandi í baráttunni fyrir kvenréttindum og jafnrétti og leggja sitt af mörkum í að byggja réttlátt samfélag og hagkerfi í kjölfar COVID-19.