Vigdís Finnbogadóttir ávarpar þjóðina í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna þann 19. júní 2015.

Vigdís Finnbogadóttir ávarpar þjóðina í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna þann 19. júní 2015.

Sunnudaginn 28. júní 2015 verður því fagnað í miðbæ Reykjavíkur að liðin eru 35 ár síðan þjóðin valdi Vigdísi Finnbogadóttur í embætti forseta Íslands.

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur annast skipulag hátíðarhaldanna í samstarfi við Alþingi, Háskóla Íslands, Reykjavíkurborg, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins, framkvæmdanefnd um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna, Þórshöfn í Færeyjum, Kvenréttindafélag Íslands, skógræktar- og landgræðslufélög ásamt fjölda annarra stofnana og félagasamtaka.

Fjölbreytt dagskrá verður flutt af stóru sviði við rætur Arnarhóls og hefst hún kl. 19:40 og stendur til rúmlega 21:00.

Dagskráin verður kynnt af ungu fólki sem ýmist er nýútskrifað úr sviðslistadeild Listaháskóla Íslands eða starfar með Stúdentaleikhúsinu innan vébanda Háskóla Íslands. Þau semja textana undir handleiðslu Andra Snæs Magnasonar rithöfundar og tengja atriðin saman. Blásarasveit, skipuð félögum úr sveitinni Wonderbrass, blæs inn hátíðina og Einar K Guðfinnsson, forseti Alþingis, flytur setningarræðu.

Tónlistaratriðin verða af ýmsu tagi, t.d. má nefna að Eivör Pálsdóttir kemur frá Færeyjum og flytur 2 – 3 lög. Palle Knudsen frá Danmörku og Ylva Kihlberg frá Svíþjóð flytja dúett Papagenos og Papagenu úr Töfraflautu Motzarts, ásamt sönglögum frá Svíþjóð og Danmörku, meðleikari þeirra verður Helga Bryndís Magnúsdóttir. Hljómsveitin Baggalútur verður með óvænt innlegg, auk þess sem hljómsveitin Samaris flytur tónlist innblásna af menningararfi þjóðarinnar. Þá verður frumflutt lagið Vigdís eftir Má Gunnarsson, 15 ára tónlistarmann, og mun höfundurinn njóta stuðnings annarra tónlistarmanna sem taka þátt í dagkránni.

Hátíðarræða verður flutt af rithöfundunum Kristínu Helgu Gunnarsdóttur og Jóni Kalman Stefánssyni og verður hún með óhefðbundnu sniði. Leikið atriði verður úr sýningunni Leitin að Jörundi – Sápuópera um Hundadagakonung. Það er leik- og söngkonan Edda Þórarinsdóttir, sem verður þar í aðalhlutverki ásamt Jörundi sjálfum og Tríó Karls Olgeirssonar leikur með í lögum úr verkinu. Þá flytur Hjörleifur Hjartarson fulltrúi Hunds í óskilum brot í bundnu máli úr Sögu þjóðar.

Ljúf samverustund, lautarferð á Arnarhól, að kvöldi sunnudagsins 28. júní, fyrir alla fjölskylduna.