Kvenréttindafélag Íslands skilaði inn umsókn þann 8. febrúar 2011 um þingsályktunartillögu um staðgöngumæðrun, þskj. 376 – 310. mál. Þar ályktaði Kvenréttindafélagið að lagafrumvarpið væri ótímabært, að umræða í samfélaginu væri enn á frumstigi, og að veigamikil siðferðisleg rök væru gegn því að heimila staðgöngumæðrun, hvort sem er í velgjörðarskyni eða hagnaðarskyni.

Erfiðar siðferðislegar spurningar vakna í umræðunni um staðgöngumæðrun og siðfræðingar eins og Sólveig Anna Bóasdóttir hafa bent á að rétti kvenna yfir eigin líkama sé stefnt í hættu þegar staðgöngumæðrun sé fest í lög. Ástríður Stefánsdóttir læknir og siðfræðingur tekur í sama streng, og hefur einnig minnt á það að staðgöngumæðrun hafi tilhneigingu til að markaðsvæðast þar sem hún er heimiluð. Ástríður hefur einnig minnt á að Ísland hefur um áratuga skeið verið í samfloti með Norðurlöndum í flestum veigamiklum málefnum og að ekkert Norðurlandanna hefur séð ástæðu til þess að leyfa staðgöngumæðrun, og í Finnlandi væri staðgöngumæðrun beinlínis bönnuð.

Kvenréttindafélag Íslands telur að staðgöngumæðrun ætti ekki að lögfesta hér á landi. Umræðan um staðgöngumæðrun snýst oftar en ekki um réttindi fólks til að verða foreldri, en það eru ekki mannréttindi að eignast börn, heldur forréttindi. Hvetur Kvenréttindafélagið til þess að stjórnsýslan beiti sér fyrir því að sjá til þess að ættleiðingaferlið hér á landi verði gert mun skilvirkara, gert gagnsætt og einfaldað; að frumættleiðingar verði auðveldur valkostur fyrir fólk sem vill verða foreldrar.

Að þessu sögðu, þá munum við svara eftirfarandi spurningum af bestu getu, en að sjálfsögðu verður einungis hægt að tæpa á brotabroti af þeim erfiðu siðferðislegu spurningum sem þar er varpað fram. Sú spurning sem er langmikilvægust í eftirfarandi skjali er spurning nr. 8: „Hvernig getur lagasetning sem heimilar staðgöngumæðrun komist hjá því að hrófla við „grunnskilgreiningu móðurhlutverksins“? Með hvaða hætti á að móta hugtakið móðir? Samkvæmt 1.mgr. 6.gr. barnalaga, nr.76/2003, telst kona sem elur barn sem getið er við tæknifrjóvgun móðir þess.“

Kvenréttindafélag Íslands telur að ekki skuli hrófla við þeirri grundvallarskilgreiningu á móðurhlutverkinu sem birtist í 1.mgr. 6.gr. barnalaga, nr.76/2003. Móðir er sú kona sem elur barn.

Kvenréttindafélag Íslands leggur til að lög um ættleiðingar nr.130/1999 og barnalög nr.76/2003 verði höfð til hliðsjónar í starfi vinnuhópsins, að litið verði á staðgöngumæðrun sem fyrirfram skipulagða ættleiðingu, að móðir hafi stjórn yfir eigin líkama og eigin meðgöngu og eigin barni, og ef að hún svo kýs, gert kleift að gefa barnið til ættleiðingar eftir fæðingu.

Eins og fram kemur í níunda lið eftirfarandi skjals, er margt sem getur komið upp á í ferli þegar kona gengur með barn fyrir aðra. Margt getur farið úrskeiðis, og auðvelt er að sjá fyrir sér aðstæður þar sem barnið er skilið eftir umkomulaust. Við teljum að ef staðgöngumæðrun verður lögfest hér á landi, þá ætti skýlaust að bæta við viðurlögum ef brotið er gegn lögunum, ef fólk kaupir sér líkama kvenna t.d. í svokölluðum „baby factories“ í þróunarlöndum, eða ef ætlaðir kjörforeldrar þvinga aðra til að ganga með börn fyrir sig, eða ef ætlaðir kjörforeldrar neita svo að taka við barninu.

Við ítrekum hér með að Kvenréttindafélag Íslands telur að staðgöngumæðrun ætti ekki að lögfesta hér á landi. Það eru ekki mannréttindi að eignast börn, heldur forréttindi.

 

Staðgöngumæðrun yfir landamæri

 1. Hvernig er með lagasetningu mögulegt að draga úr líkum á því að íslenskir ríkisborgarar kaupi sér þjónustu staðgöngumæðra erlendis?
 2. Á staðgönguþjónusta sem veitt er innan íslenska kerfisins að einskorðast við íslenska ríkisborgara?
 1. Kvenréttindafélag Íslands leggst gegn því að Íslendingum sé auðveldað að kaupa líkama erlendra kvenna til að ganga með börn. Við bendum á lög um ættleiðingar nr. 130/1999, þar sem gert er skýrt að allar ættleiðingar á Íslandi skuli eiga sér stað í gegnum milligöngu löggildra ættleiðingarfélaga, og í þeim lögum kemur skýrt fram að ættleiðing sem fram fer erlendis sé „ekki gild hér á landi ef hún gengur í berhögg við grunnreglur íslensks réttar (allsherjarreglu)“ (VII kafli, 39. gr. laga um ættleiðingar nr. 130/1999).

Við teljum að ef staðgöngumæðrun sé lögfest hér á landi, þá ætti skýlaust að bæta við viðurlögum ef fólk kaupir sér líkama kvenna t.d. í svokölluðum „baby factories“ í þróunarlöndum.

Við mótmælum því að talað sé um „þjónustu staðgöngumæðra“, en meðganga móður er ekki þjónusta sem gengur kaupum og sölum.

 1. Þetta er spurning sem erfitt er að svara, og er ein af mörgum ástæðum þess að Kvenréttindafélag Íslands leggst gegn lagasetningu um staðgöngumæðrun. Við viljum að sjálfsögðu koma í veg fyrir að einstaklingar geti nýtt sér neyð kvenna erlendis og flutt þær hingað til lands aðeins til að ganga með barn fyrir sig. Þá viljum við líka koma í veg fyrir markaðsvæðingu staðgöngumæðrunar, að hér á landi rísi markaður þar sem íslenskar konur gangi með börn fyrir erlenda foreldra betur stæðra.

Í ættleiðingarlögunum kemur skýrt fram að manni sem búsettur er hér á landi er einungis heimilt að ættleiða börn, en ekki er gerð krafa um ríkisborgararétt. Við teljum að búseta á Íslandi skyldi vera frumskylda þess umsóknar um að verða (staðgöngu)móðir og kjörforeldri.

Ef staðgöngumæðrun verður lögfest hér á landi teljum við mikilvægt að staðgöngumóðirin hafi aðgang að íslensku heilbrigðiskerfi til að tryggja svo best verður á kosið heilsu staðgöngumóðurinnar. Þá þarf ríkið að sjá til þess að staðgöngumóðirin sé tryggð gagnvart öllu því heilsutjóni sem hún kann að verða fyrir á meðgöngunni, þar með talið langavarandi örorku.

Við hvetjum til að vinnuhópurinn líti sérstaklega á þá hættu á að konur séu fluttar til landsins til að ganga með börn fyrir Íslendinga og leiti allra leiða til að koma í veg fyrir að möguleg lög um staðgöngumæðrun stuðli að mansali. Við teljum að ef staðgöngumæðrun verður lögfest hér á landi, þá ætti skýlaust að bæta við viðurlögum ef fólk nýtir sér neyð kvenna úr fátækari löndum og flytur þær inn til að ganga með börn fyrir sig.

Við mótmælum því að talað sé um „staðgönguþjónustu“, en meðganga móður er ekki þjónusta sem gengur kaupum og sölum.

 

Í velgjörðarskyni

 1. Hvernig er hægt með lagasetningu að sjá til þess að staðgöngumæðrun verði eingöngu í velgjörðarskyni?
  1. Hvernig er með lagasetningu mögulegt að heimila lagasetningu í velgjörðarskyni án þess að framkvæmdin færist í þá átt að verðandi foreldrar veiti staðgöngumóðurinni umtalsverð hlunnindi?
  2. Hversu mikilvægt er að koma í veg fyrir að slík þróun eigi sér stað?
 1. Kvenréttindafélagið benti á í umsögn sinni dagsettri 11. febrúar 2011 um þingsályktunartillögu um staðgöngumæðrun þskj. 376 – 310. mál á umfjöllun Ástríðar Stefánsdóttur læknis og siðfræðings um staðgöngumæðrun. Ástríður skrifaði grein í Fréttablaðið 29. janúar 2011 þar sem hún bendir á að staðgöngumæðrun hafi tilhneigingu til að markaðsvæðast þar sem hún hefur verið heimiluð.

Konur eru ekki markaðsvara, og meðganga er ekki þjónusta (og við bendum á að þessi spurningarlisti vísar þrisvar sinnum til meðgöngu (staðgöngu)móður sem þjónustu (í spurningu 1, 2 og 7)).

Erfitt er að sjá hvernig hægt er að koma í veg fyrir markaðsvæðingu staðgöngumæðrunar ef hún skyldi verða lögfest hér á landi í velgjörðarskyni. Þetta er ein ástæða þess að Kvenréttindafélag Íslands leggst gegn lögfestingu staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni.

Að þessu sögðu, ef staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni verður lögfest, teljum við það afskaplega mikilvægt að engin fjárhagsleg tengsl séu á milli móður og verðandi foreldra.

Við teljum þó að ekki sé á neinn hátt fyllilega hægt að koma í veg fyrir að fólk greiði staðgöngumóður fyrir meðgönguna. Erfitt er fyrir lögreglu að fylgjast með því að greiðslur fyrir meðgöngu eigi sér ekki stað, því að þóknun getur verið í ýmsu formi, svo sem peningagreiðsla, gjafir, fjárhagsleg aðstoð, aðstoð til náms, aðstoð til ferðalaga, aðstoð í formi starfsframlags o.s.frv. Við teljum það nauðsynlegt að setja skýrt í lög að ef slíkt komist upp sé það refsivert athæfi.

Ef staðgöngumæðrun er í velgjörðarskyni, þá er erfitt að sjá að móðir geti þegið greiðslu fyrir staðgöngumæðrunina. Hafa ber í huga að móðir hefur ekki einungis rétt yfir eigin líkama, meðgöngu og börnum, heldur ber hún einnig ábyrgð á eigin líkama og þeirri ákvörðun að lána hann til að ganga með barn fyrir aðra. Því teljum við að móðir beri ábyrgð á eigin meðgöngu og kostnaði þar af lútandi. Kona sem tekur þá ákvörðun að ganga með barn fyrir aðra, ber ábyrgð á þeirri ákvörðun og afleiðingum þeirrar ákvörðunar.

Ef staðgöngumæðrun verður lögfest hér á landi teljum við mikilvægt að staðgöngumóðirin hafi aðgang að íslensku heilbrigðiskerfi til að tryggja svo best verður á kosið heilsu staðgöngumóðurinnar. Þá þarf ríkið að sjá til þess að staðgöngumóðirin sé tryggð gagnvart öllu því heilsutjóni sem hún kann að verða fyrir af meðgöngunni, þar með talið langavarandi örorku.

 

Tegund staðgöngumæðrunar

 1. Á að setja því mörk í íslenskri löggjöf hvaða tegundir staðgöngumæðrunar eru heimilar? Hvaða skorður er hægt að setja og hvers vegna á að setja þær eða setja þær ekki að ykkar mati?
 1. Kvenréttindafélag Íslands leggst gegn því að staðgöngumæðrun sé heimiluð hér á landi.

 

Hagur og réttindi barns

 1. Hvaða forsendur telur umsagnaraðili nauðsynlegar til að tryggja að hagur og réttindi barns sem verður til með staðgöngumæðrun verði ávallt í fyrirrúmi?
  1. Hvernig er æskilegast að tryggja rétt barns til að þekkja uppruna sinn?
  2. Hvernig á að tryggja réttindi barns sem fætt er af erlendri staðgöngumóður í landi þar sem sett eru ólík skilyrði?
 1. Erfitt er að sjá til þess að hægt verði að tryggja hag og réttindi barns í löggjöf sem heimilar staðgöngumæðrun. Samkvæmt 1.gr barnalaga nr.76/2003 á barn rétt á að lifa og þroskast og njóta verndar og umönnunar. Lög um staðgöngumæðrun virðast vera í mótstöðu við þessi grundvallarréttindi barna, þar sem þar er verið að lögfesta getnað og fæðingu án þess að umönnun og vernd og þroski og líf barnsins sé tryggt, því að áætlaðir foreldrar eru aðrir en móðir barnsins.

Barn á rétt á að þekkja báða foreldra sína samkvæmt 1. gr. a barnalaga nr.76/2003 og samkvæmt 26. gr laga um ættleiðingar nr. 130/1999 skulu kjörforeldrar skýra kjörbarni sínu frá því jafnskjótt og það hefur þroska til að það sé ættleitt. Skal það að jafnaði gert eigi síðar en er barn nær sex ára aldri. Þegar kjörbarn hefur náð 18 ára aldri á það rétt á að fá tiltækar upplýsingar um það frá dómsmálaráðuneytinu hverjir séu kynforeldrar þess eða fyrri kjörforeldrar. Sjáum við ekki ástæðu þess að hrófla við þessum réttindum barna þegar um staðgöngumæðrun er að ræða.

Erfitt er að sjá hvernig íslenska ríkið getur tryggt réttindi barna sem fædd eru af erlendri móður sem sett eru ólík skilyrði. Við minnum aftur á 39. gr. laga um ættleiðingar nr.130/1999 sem segir að ættleiðing sem fram fer erlendis sé „ekki gild hér á landi ef hún gengur í berhögg við grunnreglur íslensks réttar (allsherjarreglu)“.

 

Hagur og réttindi staðgöngumóður

 1. Hvaða forsendur telur umsagnaraðili nauðsynlegar til að tryggja rétt, sjálfræði og velferð staðgöngumóðurinnar og fjölskyldu hennar?
  1. Hvaða kröfur, svo sem um aldur, heilbrigði, félagslega stöðu, fjölskyldustöðu og vensl (tengsl) við hina verðandi foreldra, er hægt að gera til staðgöngumóður?
  2. Hvenær, hvernig og með hvaða hætti er hægt að standa að yfirfærslu á foreldraréttinum frá staðgöngumóður / maka hennar til verðandi foreldra?
  3. Að hvaða marki og hvernig er mögulegt að stuðla að góðum og uppbyggilegum tengslum staðgöngumóður við verðandi foreldra barnsins?
 1. Kvenréttindafélag Íslands telur að löggjöf um staðgöngumæðrun skerði rétt kvenna yfir eigin líkama og skerði kynfrelsi kvenna verulega.

Einnig verður að hafa í huga að ef kona sem gengur með barn fyrir aðra er í sambúð, þá er maki hennar foreldri barnsins. Þegar barnið er gefið til ættleiðingar eftir fæðingu, þá verður að hafa í hug rétt maka móðurinnar.

Við teljum að ómögulegt sé að tryggja rétt, sjálfræði og velferð (staðgöngu)móður og fjölskyldu hennar.

Að þessu sögðu, ef ekki verður lagst gegn staðgöngumæðrun hér á landi teljum við mikilvægt að staðgöngumóðirin hafi aðgang að íslensku heilbrigðiskerfi til að tryggja svo best verður á kosið heilsu staðgöngumóðurinnar. Þá þarf ríkið að sjá til þess að staðgöngumóðirin sé tryggð gagnvart öllu því heilsutjóni sem hún kann að verða fyrir af meðgöngunni, þar með talið langavarandi örorku.

Við teljum afskaplega mikilvægt að engin fjárhagsleg tengsl séu á milli móður og verðandi foreldra.

 

Hagur og réttindi verðandi foreldra

 1. Hvaða forsendur telur umsagnaraðili nauðsynlegar til þess að tryggja farsæla aðkomu hinna verðandi foreldra?
  1. Hvaða kröfur ætti almennt að gera til hinna verðandi foreldra?
  2. Hverjir ættu að eiga rétt á þjónustu staðgöngumóður?
  3. Ætti lagasetning að heimila staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni með kynfrumum annarra en hinna verðandi foreldra?
  4. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 55/1996, um tæknifrjóvgun o.fl., er eingöngu heimilt að nota gjafakynfrumur við tæknifrjóvgun ef frjósemi er skert, um er að ræða alvarlegan erfðasjúkdóm eða aðrar læknisfræðilegar ástæður mæla með notkun gjafakynfrumna. Sé frjósemi beggja maka eða einhleyprar konu skert er heimilt að nota bæði gjafaegg og gjafasæði við glasafrjóvgun. Þá er ætíð heimilt að nota gjafasæði sé um að ræða einhleypa konu eða konu í hjónabandi eða óvígðri sambúð með annarri konu. Telur þú að nota ætti sömu skilyrði fyrir staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni og nú eru í lögum um tæknifrjóvgun?
 1. Kvenréttindafélag Íslands telur að líta eigi til langrar reynslu Íslendinga af ættleiðingum erlendis frá, en síðustu áratugi hefur fjöldi Íslendinga ættleitt börn erlendis frá, og gerðar eru kröfur til þessarra foreldra, kröfur sem hafa mótast og slípast í áranna rás.

Kvenréttindafélag Íslands telur ekki nauðsynlegt að lögfesta hvaða kynfrumur séu notaðar í staðgöngumæðrun. Móðir eru sú kona sem elur barn, og gildir einu hvaða kynfrumur eru þar notaðar.

Við ítrekum það að ekki sé hægt að að tala um „þjónustu staðgöngumóður“, en meðganga er ekki þjónusta sem hægt er að kaupa og selja.

 

Móðurhlutverkið

 1. Hvernig getur lagasetning sem heimilar staðgöngumæðrun komist hjá því að hrófla við „grunnskilgreiningu móðurhlutverksins“? Með hvaða hætti á að móta hugtakið móðir? Samkvæmt 1.mgr. 6.gr. barnalaga, nr.76/2003, telst kona sem elur barn sem getið er við tæknifrjóvgun móðir þess.

Kvenréttindafélag Íslands telur að ekki skuli hrófla við grunnskilgreiningu móðurhlutverksins. Móðir er sú kona sem elur barn.

 

Atburðaröð og tiltekin atvik

 1. Hvernig ætti lagasetning, sem heimilar staðgöngumæðrun í velferðarskyni með skilyrðum, að tryggja hag barnsins, rétt, sjálfræði og velferð staðgöngumóður og farsæla aðkomu verðandi foreldra í eftirfarandi tilvikum:
  1. Staðgöngumóður afþakkar fósturskimun við tólf vikur.
  2. Staðgöngumóðir fer í fósturskimun sem leiðir í ljós t.d. Downs-heilkenni, aðra fötlun eða sjúkdóm, en hún vill engu að síður ljúka meðgöngunni og afhenda þá barnið hinum verðandi foreldrum.
  3. Staðgöngumóðir vill eyða fóstri.
  4. Hinir verðandi foreldrar óska eftir því við staðgöngumóður að fara í fóstureyðingu.
  5. Staðgöngumóðir reykir á meðgöngu eða hagar lífi sínu á einhvern þann hátt sem hinir verðandi foreldrar telja að gæti komið niður á hag barnsins.
  6. Eftir að meðganga er hafin gerir staðgöngumóðir meiri kröfur til hinna verðandi foreldra en þau höfðu reiknað með, til dæmis hvað varðar bætur fyrir vinnutap, sjúkrakostnað, o.s.frv.
  7. Staðgöngumóðir skiptir um skoðun á meðgöngunni og vill sjálf eiga barnið.
  8. Staðgöngumóðir myndar tilfinningatengsl á meðgöngunni og á erfitt með að skilja við barnið en lætur ekki í ljós skýran vilja.
  9. Hinir verðandi foreldrar skipta um skoðun á meðgöngunni og vilja ekki taka við barninu.
  10. Aðstæður hinna verðandi foreldra gerbreytast á meðgöngu, til dæmis vegna aldurs, heilsu, efnahags, skilnaðar, andláts annars o.s.frv.
  11. Staðgöngumóðir skiptir um skoðun eftir að barnið fæðist og vill sjálf eiga það.
  12. Hinir verðandi foreldrar skipta um skðun eftir að barnið fæðist og vilja ekki taka við því.
  13. Eftir að barnið er komið til viðtökuforeldranna vill staðgöngumóðir meiri, minni eða annars konar samskipti en þau sætta sig við.
  14. Viðtökuforeldrar ákveða að halda því leyndu fyrir barninu að staðgöngumóðir hafi gengið með það.
 1. Þessar atburðaraðir sem settar eru fram í 9. lið eru dæmi um erfiðar siðferðislegar spurningar sem flækja framkvæmd laga um staðgöngumæðrun. Auðvelt er að ímynda sér tilvik þar sem barn er skilið eftir foreldralaust, þegar bæði móðir og væntanlegir kjörforeldrar afneita því.

Að þessu sögðu þá ítrekum við afstöðu Kvenréttindafélags Íslands að móðir sé sú kona sem elur barn, og að kona eigi allan rétt yfir eigin líkama, yfir eigin meðgöngu, yfir eigin börnum og beri að sama skapi ábyrgð á eigin líkama, meðgöngu og börnum.

 

Réttur kvenna yfir eigin líkama

Svo, ef kona vill afþakka fósturskimun (liður A), þá er það hennar réttur.

Ef kona vill eyða fóstri (liður C), þá er það hennar réttur.

Ef kona vill ljúka meðgöngu (liðir B, D), þá er það hennar réttur.

Ef kona vill reykja á meðgöngu (liður E), þá er það hennar réttur.

Ef kona vill eiga barn sitt eftir að það er fætt (liðir G, H, K), þá er það hennar réttur.

Við ítrekum það að við teljum að engin fjárhagsleg tengsl skuli vera milli móður og verðandi kjörforeldra (liður F), enda er hér rætt um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

 

Ef ætlaðir kjörforeldrar neita eða er meinað að taka við barni

Erfitt er að sjá til þess að hægt verði að tryggja hag og réttindi barns í löggjöf sem heimilar staðgöngumæðrun. Samkvæmt 1. gr barnalaga nr. 76/2003 á barn rétt á að lifa og þroskast og njóta verndar og umönnunar. Lög um staðgöngumæðrun virðast vera í mótstöðu við þessi grundvallarréttindi barna, þar sem þar er verið að lögfesta getnað og fæðingu án þess að umönnun og vernd og þroski og líf barnsins sé tryggt, því að áætlaðir foreldrar eru aðrir en móðir barnsins.

Sá möguleiki sem reifaður er í lið I og L, að verðandi kjörforeldrar neiti að taka við barni sem kona hefur gengið með fyrir þá er skelfilegur, og er ein ástæða þess að við teljum að löggjöf um staðgöngumæðrun skerði rétt barna og sé því andstæð barnalögum.

Í lögum um ættleiðingar nr. 130/1999 er ráðherra heimilt að afturkalla forsamþykki kjörforeldra ef aðstæður hafa breyst verulega frá útgáfu þess. Erfitt er að sjá að hægt sé að heimila þetta í löggjöf um staðgöngumæðrun (liður J), en þá skapast sú staða að barn er fætt í umsjón móður sem ætlar að afsala sér móðurhlutverkinu. Þetta er ein af ástæðum þess að við teljum að erfitt sé að heimila staðgöngumæðrun án þess að skerða réttindi barna.

 

Réttur barns til að þekkja uppruna sinn

Barn á rétt á að þekkja báða foreldra sína samkvæmt 1. gr. a barnalaga nr.76/2003 og samkvæmt 26. gr laga um ættleiðingar nr. 130/1999 skulu kjörforeldrar skýra kjörbarni sínu frá því jafnskjótt og það hefur þroska til að það sé ættleitt. Skal það að jafnaði gert eigi síðar en er barn nær sex ára aldri. Þegar kjörbarn hefur náð 18 ára aldri á það rétt á að fá tiltækar upplýsingar um það frá dómsmálaráðuneytinu hverjir séu kynforeldrar þess eða fyrri kjörforeldrar. Sjáum við ekki ástæðu þess að hrófla við þessum réttindum barna (liður N).

Þegar kona hefur gefið barn sitt til ættleiðingar skal réttur hennar til umgengni vera sá sami og réttur allra annarra foreldra sem gefið hafa börn sín til ættleiðingar (liður M).

Aðrar fréttir