Mannréttindaskrifstofa Íslands og Kvenréttindafélag Íslands hafa sent inn eftirfarandi tillögur og ábendingar um atriði sem leggja skal áherslu á við gerð skýrslu Íslands um alþjóðasamning um afnám allrar mismununar gagnvart konum (Forsætisráðuneytið, mál nr. 78/2021).

Sjálfstæð mannréttindastofnun

Stjórnvöld hafa skipað starfshóp til að útfæra hugmyndir um sjálfstæða innlenda mannréttindastofnun, sem uppfyllir Parísarviðmið Sameinuðu þjóðanna um slíkar stofnanir á Íslandi. Lýtur sú vinna einkum að því hvaða verkefni innan stjórnkerfisins geti fallið undir starfsemi slíkrar stofnunar.

MRSÍ og KRFÍ fagna skipan starfshópsins og hvetja til að við vinnu hans verði haft samráð við hagsmunaaðila og samtök sem vinna að mannréttindum, almennt sem og tiltekinna hópa.

Launamunur kynjanna

Enn hefur launamunur kynjanna ekki verið jafnaður þrátt fyrir ýmsar jákvæðar aðgerðir eins og kynjaða fjárlagagerð og jafnlaunavottun. Samkvæmt 6. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna skal konum,  körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá tryggð jöfn laun og njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf sem og að samkvæmt 7. gr. laganna skulu öll fyrirtæki sem hafa fleiri en 25 starfsmenn öðlast jafnlaunavottun.

MRSÍ og KRFÍ benda á að mun fleiri fyrirtæki en ekki hafa færri en 25 starfsmenn svo að ástæða væri til að færa starfsmannafjöldann neðar. Einnig nægir ekki að kveða á um sömu laun fyrir sömu eða jafnverðmæt störf, það þarf beinlínis að endurmeta hefðbundin kvennastörf, svo sem umönnunarstörf svo ekki þyki sjálfsagt að laun í slíkum störfum séu langt undir launum iðnaðarmanna svo dæmi séu nefnd.

Rannsóknir hér á landi hafa sýnt að konur af erlendum uppruna eru líklegar til þess að búa við tvöfalda mismunun vegna kyns og stöðu sinnar sem innflytjendur, eins og dregið er saman í skýrslunni Konur af erlendum uppruna: hvar kreppir að sem Unnur Dís Skaptadóttir og Kristín Loftsdóttir unnu fyrir félagsmálaráðuneytið árið 2019.

MRSÍ og KRFÍ minna á nauðsyn þess að stjórnvöld skipuleggi aðgerðir til að glíma við fjölþætta mismunun á vinnumarkaði, svo sem að fylgjast með og koma með aðgerðir gegn launamun eftir kyn og uppruna.

Jafnréttisstofa

Jafnréttisstofa sinnir m.a. framkvæmd laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, þ. á m. veita og halda skrá yfir jafnlaunavottun. Stofnunin hefur jafnframt með höndum eftirlit með framfylgd laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna og jafna meðferð á vinnumarkaði. Þrátt fyrir svo umfangsmikið verksvið hefur lítið verið aukið við fjárframlög til stofnunarinnar og mannafla með sérþekkingu á þeim mismununarástæðum sem stofnuninni er ætlað að fjalla um. Þá veldur áhyggjum að meginstarfsemi skristofunnar sé á Akureyri, Jafnréttisstofa hefur afar veigamikið hlutverk í íslensku samfélagi, bæði sem eftirlis- og fræðsluaðili og vegna vitundarvakningar og umræðu um jafnrétti í samfélaginu.

MRSÍ og KRFÍ hafa áhyggjur af því að staðsetning Jafnréttisstofu langt frá höfuðborginni þar sem ráðuneyti og flestar opinbera stofnanir eru staðsettar geti haft áhrif á að þessi mikilvæga stofnun nái ekki að sinna hlutverkum sínum og hafa þau áhrif sem skyldi.

Mansal

Þrátt fyrir ýmsar jákvæðar aðgerðir í mansalsmálum, svo sem viðbragðsteymi í Bjarkarhlíð, fræðslu frá RKÍ, fyrirhugað hlutverk 112 o.s.frv., skortir enn nokkuð á heildstæða nálgun og skilvirkt kerfi.

MRSÍ og KRFÍ hvetja til þess að stjórnvöld auki fjárveitingar til málaflokksins, auka þekkingu þeirra sem að slíkum málum koma og auka vitund almennings og skilning á mansali. Þá er einnig þörf á að skoða stöðu erlendra kvenna á íslenskum vinnumarkaði með tilliti til mansals og rannsaka umfang þess.

Kynjafræðikennsla á öllum skólastigum.

Til þess að ná árangri í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi þarf að ráðast á rót vandans, að fræða nýjar kynslóðir um jafnrétti kynjanna og fjölþætta mismunun.

MRSÍ og KRFÍ leggja til að kynjafræði verði gerð að skyldufagi á öllum skólastigum og einnig í kennaranámi og að tryggt verði að námsefni í skólum endurspegli öll kyn.

MRSÍ og KRFÍ minna á rafrænt námsefni sem Kvenréttindafélag Íslands hefur gefið út ætlað til kennslu á framhaldsskólastigi. „Grunnkúrs í kvenréttinum“ byggir á Kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Pekingsáttmálanum og er að finna hér: http://nam.kvenrettindafelag.is.

Kynjakvóti í stjórnum fyrirtækja

Samkvæmt lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög skal, þar sem starfa fleiri en 50 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli, hvort kyn eiga fulltrúa í stjórn þegar stjórn er skipuð þremur mönnum og þegar stjórnarmenn eru fleiri en þrír í slíkum félögum skal tryggt að hlutfall hvors kyns sé ekki lægra en 40%. Í ljósi þess að tiltölulega fá félög uppfylla skilyrðið um starfsmannafjölda mætti breyta lögunum á þann veg að skilyrðið taki til félaga með 25 starfsmenn og fleiri.

MRSÍ og KRFÍ hvetja til þess að lög um samvinnufélög nr. 50/2007, einkahlutafélög nr. 138/1994, hlutafélög nr. 2/1995 og sameignarfélög nr. 50/2007 verði uppfærð svo að ákvæði um kynjahlutföll í stjórn taki til allra félaga með 25 eða fleiri starfsmenn, sem er sama viðmið og er notað til að skilgreina fyrirtæki eða stofnun sem þurfa að undirgangast jafnlaunavottun í í jafnréttislögum nr. 150/2020.

Einnig hvetja MRSÍ og KRFÍ til að lög um hlutafélög nr. 2/1995, lög um einkahlutafélög nr. 138/1994 og lög um starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1995 verði uppfærð í ljósi nýrra laga um kynrænt sjálfræði nr. 80/2019 og taki tillit til fólks með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá.

Stuðningur við samtök sem starfa gegn kynjamisrétti og kynbundnu ofbeldi

Stuðningur stjórnvalda við framangreind samtök hefur verið góður og vaxið á tímum COVID-19 faraldursins. Ýmis samtök sem starfa að málefnum kvenna hafa og verið kölluð til álits þegar unnið er að jafnréttisáætlunum og aðgerðaáætlunum gegn kynbundnu ofbeldi. Hins vegar hefur orðið misbrestur þar á og skort á að leitað sé til þeirra sem jafnvel mesta reynslu hafa á því sviði sem til umfjöllunar er hverju sinni sem og að fjárhagsstuðningur við sum samtök er enginn á meðan önnur fá jafnvel hækkun framlaga. Sem dæmi má nefna Kvennaráðgjöfina, sem hefur starfað síðan 1983 og er ókeypis félags- og lögfræðiráðgjöf fyrir konur (og reyndar alla sem til hennar leita). Kvennaráðgjöfin er einn af samstarfsaðilum sem að Bjarkarhlíð, Bjarmahlíð og Sigurhæðum standa en var synjað um rekstrarframlag fyrir árið 2021 og er nú nauðugur einn kostur að hætta starfsemi.

MRSÍ og KRFÍ hvetja til þess að stjórnvöld styðji og efli starfsemi samtaka sem starfa gegn kynjamisrétti og kynbundnu ofbeldi í hvívetna.

Meðferð kynferðisbrotamála og heimilisofbeldismála

Lágt ákæru- og sakfellingarhlutfall í kynferðisbrota og heimilisofbeldismálum er áhyggjuefni eins og nýlegt átak sem Stígamót og lögmannsstofan Réttur standa að og snýst um kærur til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna niðurfellingar kynferðisbrota- og ofbeldismála. Þá skortir á mannafla og fé til handa lögreglu til eflingar á rannsókn vændiskaupa og mansalsmála.

MRSÍ og KRFÍ hvetja stjórnvöld til að tryggja að lögreglan hafi bæði úrræði og aðföng á kynferðisbrota- og ofbeldismálum sem og að rannsaka mansal og vændiskaup.

Ofbeldisbrot gegn fötluðum konum

Ný skýrsla Ofbeldi gegn fötluðum á Íslandi sem Greiningardeild ríkislögreglustjóra gaf út árið 2021 sýnir að ofbeldisbrot gegn fötluðu fólki eru algengari en gegn ófötluðu á meðan sakfellingar í málum þar sem brotaþoli er fatlaður eru mun færri en þegar brotaþoli er ófatlaður og að réttarvarsla fatlaðs fólks er lakari en annarra. Þrátt fyrir að fyrir liggi drög að frumvarpi um breytingu á lögum um meðferð sakamála sem miðar að því m.a. að bæta réttarstöðu fatlaðs fólks þá eru áhöld um að nóg sé að gert, t.d. hvað varðar fólk með þroskahömlun eða ýmsar raskanir, til dæmis hvað varðar viðeigandi aðlögun, viðtalstækni o.fl.

MRSÍ og KRFÍ hvetja til þess að stjórnvöld geri þær útbætur sem nauðsynlegar eru til að fatlað fólk standi jafnfætis öðrum í réttarkerfinu.

Aðrar fréttir