ATH: Þessi lög Kvenréttindafélags Íslands voru felld úr gildi á aðalfundi 5. maí 2019. Hægt er að lesa núgildandi lög félagsins hér.
—
1. gr. Félagið heitir Kvenréttindafélags Íslands, skammstafað KRFÍ. Heimili þess og varnarþing er að Kvennaheimilinu Hallveigarstöðum, Túngötu 14, Reykjavík.
2. gr. Markmið félagsins er að vinna að kvenréttindum og jafnri stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Félagið leggur áherslu á mannréttindi í víðum skilningi og vinnur gegn hvers konar mismunun. Félagið vinnur samkvæmt stefnuskrá sem samþykkt er á aðalfundi.
3. gr. Félagið á aðild að Alþjóðasambandi kvenréttindafélaga (International Alliance of Women – IAW).
4. gr. Meðlimir félagsins geta orðið:
- Einstaklingar sem náð hafa 18 ára aldri og vilja vinna samkvæmt lögum félagsins og stefnuskrá.
- Kvenréttindafélög og önnur félög sem vinna að sambærilegum stefnumálum og KRFÍ.
Umsókn um inngöngu í félagið skal senda stjórn KRFÍ.
5. gr. Aðalfundur kýs formann og sex stjórnarmenn til tveggja ára í senn. Formann og þrjá stjórnarmenn skal kjósa á ári með oddatölu og þrjá stjórnarmenn skal kjósa á ári með sléttri tölu. Aðalfundur kýs einnig þrjá varamenn í stjórn til eins árs í senn. Stjórnin skiptir með sér verkum og setur sér starfsreglur. Formaður og stjórn eru málsvari félagsins út á við. Stjórn fer með ákvörðunar- og framkvæmdavald á milli aðalfunda.
6. gr. Aðalfundur skal haldinn fyrir 15. júní ár hvert og skal boða félagsmenn, skv. netfangaskrá félagsins og heimasíðu þess, með minnst tveggja vikna fyrirvara. Með fundarboði skal senda tillögur um lagabreytingar, ef einhverjar eru. Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað. Framboð til stjórnarsetu skal berast til starfandi stjórnar viku fyrir boðaðan aðalfund. Kosningar eru bundnar og leynilegar ef stungið er upp á fleirum en kjósa skal. Kosningarétt og kjörgengi á aðalfundi, þar á meðal í nefndir og ráð sem KRFÍ á aðild að, hafa aðeins skuldlausir félagsmenn. Einfaldur meirihluti mættra félagsmanna ræður úrslitum mála. Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:
- Kosning fundarstjóra og fundarritara
- Lögð fram skýrsla stjórnar með kafla um störf nefnda og stjórna
- Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins
- Ákveðið félagsgjald, sbr. 7. gr
- Tillögur um lagabreytingar, ef koma fram
- Kosinn formaður, sbr. 5 gr.
- Kosin stjórn, sbr. 5. gr.
- Kosnir tveir skoðunarmenn reikninga
- Kosin stjórn Menningar-og minningarsjóðs kvenna, sbr. 8. gr
- Valdir fulltrúar í nefndir og ráð sem KRFÍ á aðild að
- Önnur mál
7. gr. Aðalfundur ákveður félagsgjöld. Greiði félagsmenn eða aðildarfélög ekki gjöld sín í samfleytt 4 ár er heimilt að strika nöfn þeirra út af félagaskrá.
8. gr. Aðalfundur kýs stjórn Menningar- og minningarsjóðs kvenna í samræmi við skipulagsskrá sjóðsins. Stjórnin setur sér starfsreglur og leggur fram skýrslu um störf sín.
9. gr. Félagið gefur út tímaritið 19. júní sem kemur út 19. júní ár hvert. Stjórn skipar ritnefnd blaðsins.
10. gr. Stjórn félagsins heldur árlegan fund með fulltrúum þeirra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi Íslands hverju sinni.
11. gr. Stjórn félagsins skipar fulltrúa í stjórn Kvennaheimilisins Hallveigarstaða sbr. reglugerð Kvennaheimilisins Hallveigarstaða.
12. gr. Stjórn félagsins ber ábyrgð á fjárreiðum félagsins. Reikningshald félagssjóðs og blaðsjóðs 19. júní skal vera aðskilið.
13. gr. Félagið verður lagt niður þegar það hefur náð markmiðum sínum eða með samþykki 3/4 hluta greiddra atkvæða á aðalfundi tvö ár í röð.
14. gr. Verði félagið lagt niður skulu eignir þess, þar með talinn hlutur þess í Kvennaheimilinu Hallveigarstöðum, renna til Menningar- og minningarsjóðs kvenna.
15. gr. Verðmæt skjöl og sögulegar heimildir um félagið varðveitist í Kvennasögusafni Íslands.
16. gr. Breytingar á lögum ganga í gildi þegar þær hafa hlotið samþykki aðalfundar með samþykki 3/4 hluta greiddra atkvæða á aðalfundi.
Samþykkt á aðalfundi 31. maí 2017
—
ATH: Þessi lög Kvenréttindafélags Íslands voru felld úr gildi á aðalfundi 5. maí 2019. Hægt er að lesa núgildandi lög félagsins hér.